Samið um niðurrif á Raufarhöfn

Bergur Elíasson sveitarstjóri og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra undirrita samkomulagið …
Bergur Elíasson sveitarstjóri og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra undirrita samkomulagið á Húsavík í dag. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Ríkissjóður, Norðurþing og Síldarvinnslan í Neskaupstað hafa gert með sér samkomulag um niðurrif fasteigna, hreinsun, frágang og förgun úrgangs á Síldarverksmiðjulóð á Raufarhöfn. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra undirritaði samkomulagið fyrir hönd ríkisins á Húsavík í dag.

Á vef fjármálaráðuneytisins segir að sveitarfélagið Norðurþing, sem fer með skipulagsmál á svæðinu, hafi tekið ákvörðun um að nauðsynlegt sé að ráðast í framkvæmdir á lóðinni sem fela í sér að rífa verður og fjarlægja nokkrar fasteignir sem þar standa. Umræddar fasteignir hafi verið í mikilli niðurníðslu auk þess sem mikil slysahætta stafi af þeim. Þá liggi fyrir að tilvist og ástand þeirra standi allri þróun og frekara skipulagi á svæðinu fyrir þrifum, en í framtíðinni hyggst sveitarfélagið skipuleggja þar íbúabyggð.

Kostnaður við framkvæmdina er áætlaður um 64 milljónir kr. en verkfræðistofan Mannvit var fengin til að áætla kostnað við framkvæmdirnar. Kostnaður við framkvæmdina skiptist jafnt á milli samningsaðila. Norðurþing mun sjá um og bera ábyrgð á framkvæmd verkefnisins og hefjast handa um leið og öll nauðsynleg leyfi, samningar og samþykki hlutaðeigandi aðila liggja fyrir. Áætluð verklok eru á árinu 2012.

Bæjarstjóri Norðurþings, Bergur E. Ágústsson, og Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri SVN, undirrituðu samkomulagið ásamt fjármálaráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert