Níu hæstaréttarlögmenn, sem gæta hagsmuna ýmissa sakborninga sem eru til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara, segja mál að linni en undanfarið hafi sérstakur saksóknari veitt fjölmiðlum lið í sakbendingum sem birtar hafi verið í Kastljósi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem lögfræðingarnir hafa sent frá sér.
„Hér á landi fara nú fram umfangsmeiri sakamálarannsóknir en nokkur dæmi eru um í sögunni. Málin eru flókin. Lítt er hirt um að skýra málstað sakborninga, þeir njóta ekki sannmælis og sanngirni og eiga erfitt með að koma sinni hlið á framfæri. Tilraunir til þess gera lítið annað en að halda málum í umræðu og valda sakborningum og fjölskyldum þeirra miska. Krafan um saksókn og sakfellingar er hávær og lítill gaumur er gefinn þeim möguleika að hinir sökuðu kunni að vera saklausir.
Grundvallarregla í öllum siðuðum samfélögum er sú að allir sem eru bornir sökum um refsiverða háttsemi skuli teljast saklausir þar til sekt þeirra hefur verið sönnuð. Þetta er laga- og siðaregla sem gildir fyrir alla. Frá reglunni eru engar undatekningar. Engu skiptir t.d. hversu alvarlegur verknaðurinn er talinn vera. Þvert á móti reynir mest á að reglunni sé fylgt þegar alvarlegar sakir eru bornar á menn . Þá er freistingin mest að kasta lögum og siðferði til hliðar og lýsa menn seka þótt engin sök hafi verið sönnuð.
Nýjasta framlag fjölmiðla til umræðunnar er umfjöllun Kastljóss í vikunni sem leið. Þar virtust sérstakur saksóknari og aðrir rannsakendur mála tengdum bankahruninu hafa ákveðið að leka völdum upplýsingum til Kastljóss. Á grundvelli þeirra upplýsinga hefur svo Kastljós eða viðmælendur þess viðhaft ítrekaðar staðhæfingar um sekt nafngreindra manna þrjú kvöld í röð á besta tíma í sjónvarpi, án þess að hafa kynnt sér eða hlustað á skýringar hinna sökuðu. Þannig flutti Kastljós málið einhliða fyrir áhorfendum og leiddi fram viðmælendur sem voru tilbúnir að kveða upp úr um sekt hinna sökuðu án frekari málalenginga.
Nú er mál að linni. Úr því að sérstakur saksóknari boðar að ákvörðun um saksókn sé á næsta leiti í fjölda mála verður hann að forðast að leggja fjölmiðlum lið í sakbendingum af því tagi sem fram komu í Kastljósi. Slík umfjöllun þjónar þeim eina tilgangi að skapa þrýsting frá almenningi á dómstóla sem nú ríður á að gæti að sjálfstæði sínu og óhlutdrægni. Þá verða fjölmiðlar landsins að sýna þann siðferðisstyrk að leyfa mönnum að njóta sjálfsagðra mannréttinda þar til leyst hefur verið úr ágreiningi um sekt þeirra fyrir dómstólum.
Höfundar eru hæstaréttarlögmenn og gæta hagsmuna ýmissa sakborninga sem eru til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Höfundar eru allir sjálfstæðir og óháðir í störfum sínum.
Reykjavík, 20. des. 2011
Björgvin Þorsteinsson hrl.
Brynjar Níelsson hrl.
Friðjón Örn Friðjónsson hrl.
Gestur Jónsson hrl.
Hörður Felix Harðarson hrl.
Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.
Karl Axelsson hrl.
Reimar Pétursson hrl.
Sigurður G. Guðjónsson hrl."