Skal endurgreiða 717 milljónir

Magnús Guðmundsson (t.v.) er fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg
Magnús Guðmundsson (t.v.) er fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg mbl.is/Eggert

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur rift ráðstöfun Kaupþings banka frá 25. september 2008 um að fella niður persónulega ábyrgð Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, á greiðslu lánssamninga. Skal Magnús greiða bankanum 717 milljónir kr.

Þá staðfesti héraðsdómur kyrrsetningargerð sýslumannsins í Reykjavík sem fram fór 22. júní 2011, um kyrrsetningu 20% eignarhluta Magnúsar í Hvítsstöðum fyrir dæmdri kröfu.

Málið varðar fjóra lánssamninga milli Magnúsar og Kaupþings þessa máls. Voru samningarnir gerðir í tilefni af kaupum Magnúsar á hlutabréfum í Kaupþingi. Samkvæmt lánssamningum setti Magnús hin keyptu hlutabréf að handveði til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Var undirrituð sérstök handveðsyfirlýsing þar að lútandi. Einn samningur var gerður á árinu 2005 en hinir þrír á árinu 2007.

Kaupþing lýsti atvikum málsins þannig að málið lyti að riftanleika þeirrar ráðstöfunar Kaupþings banka hf. að fella niður persónulega ábyrgð stefnda samkvæmt lánssamningum vegna hlutabréfakaupa stefnda í Kaupþingi. Magnús hefði verið forstjóri bankans í Lúxemborg og þannig einn af æðstu yfirmönnum samstæðunnar Kaupþings banka hf.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að dæma Magnús til að endurgreiða bankanum verðmæti fjárkröfu Kaupþings miðað við ábyrgð Magnúsar frá 25. september 2008, eða 717.334.575 krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert