Utanríkisráðuneytið í fyrirsvari

Reuters

Utanríkisráðuneytið er í fyrirsvari fyrir stjórnvöld í öllum samningsbrotamálum sem Eftirlitsstofnun EFTA höfðar gegn ríkisstjórn Íslands, segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Mun utanríkisráðuneytið í samráði við fjármálaráðuneytið gera kostnaðaráætlun fyrir málareksturinn.

Segir að ríkisstjórnin hafi fjallað á fundi sínum í morgun um undirbúning málsvarnar fyrir EFTA dómstólnum í Icesave-málinu. Lögð hafi veirð áhersla á mikilvægi víðtæks samráðs á undirbúningsstigi þannig að tryggja megi breiða og trausta samstöðu um málsvörnina  
Líkt og fram hefur komið hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákveðið að vísa samningsbrotamáli á hendur Íslandi vegna ábyrgðar á greiðslu lágmarkstryggingar á Icesave-reikningunum til EFTA dómstólsins.

„Vinna að Icesave-málinu hefur til þessa verið á borði forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis, en samninganefnd sú sem bar ábyrgð á Icesave III samningunum var hins vegar skipuð með samráði stjórnar og stjórnarandstöðu. Eftir að þeim samningum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur efnahags- og viðskiptaráðuneytið leitt samskipti vegna málsins við ESA, en málið verið unnið með aðkomu utanríkisráðuneytis og í samráði við ríkisstjórn, ráðherranefnd um efnahagsmál, utanríkismálanefnd og fleiri aðila,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Áhersla lögð á gott samráð

„Utanríkisráðuneytið er í fyrirsvari fyrir stjórnvöld í öllum samningsbrotamálum sem Eftirlitsstofnun EFTA höfðar gegn ríkisstjórn Íslands. Sama á almennt við um önnur mál sem stjórnvöld hafa stefnt sér inn í, sjá hjál. minnisblað. Er þetta jafnframt í samræmi við minnisblað sem utanríkisráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra lögðu fram í ríkisstjórn þann 12. apríl sl. varðandi málsvarnaráætlun Íslands í þessu máli, en þar var kveðið á um það að utanríkisráðuneytið færi með fyrirsvar í málsvörn fyrir EFTA-dómstólnum, kæmi til málshöfðunar. Utanríkisráðherra ber fulla stjórnskipulega ábyrgð á meðferð málsins sbr. 6. og 7. tölul. 9. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands enda snýst málið um grundvallaratriði varðandi túlkun og áhrif EES-samningsins og er höfðað fyrir alþjóðastofnun sem hann einn er í fyrirsvari gagnvart. Hann mun á öllum stigum málsvarnar hafa náið og virkt samráð við efnahags- og viðskiptaráðherra vegna innstæðutrygginga og annarra mála er undir hans verksvið heyra, forsætisráðherra vegna neyðarlaganna og við fjármálaráðherra vegna fjármálalegra þátta málsins. Utanríkisráðherra mun upplýsa ríkisstjórn reglulega um feril málsins. Ennfremur mun hann leggja ríka áherslu á gott samráð við utanríkismálanefnd, sb. 24. gr. þingskapalaga, og fara með annað samráð við innlenda og erlenda aðila um málið,“ segir ennfremur.

Markmið að fá kröfum ESA hnekkt

Fram kemur að það sé markmið málsvarnarinnar að fá kröfum ESA hnekkt og tryggja eins hagfellda niðurstöðu fyrir Ísland og frekast sé kostur.  Í því skyni verði  tryggt liðsinni lögmanna sem hafi reynslu af málflutningi fyrir Evrópudómstólunum í Lúxemborg. Utanríkisráðherra muni hafa samráð við ríkisstjórn um val verjanda í málinu og velji jafnframt lögfræðilegt sérfræðingateymi sem vinni saman í hans umboði að málsvörninni. Lögmenn ríkisins í máli þessu verði einungis valdir á grundvelli hæfni og þekkingar. Jafnframt sé mikilvægt að hópurinn sé þannig saman settur að breið og traust samstaða verði um málsvörnina.


Undir rekstri málsins gefst aðildarríkjum EES og framkvæmdastjórninni kostur á að koma að málarekstrinum með skriflegum umsögnum og þátttöku í málflutningi til að styðja annan hvorn aðila málsins. Ennfremur gefst þeim aðildarríkjum sem sérstaka hagsmuni geta haft af niðurstöðu tækifæri til að stefna sér inní málið til meðalgöngu en í því felst enn ríkari þátttaka í málarekstrinum. Þar sem efnahags- og viðskiptaráðherra fer með málefni innstæðutrygginga mun utanríkisráðherra njóta liðsinnis hans hans við að afla málstað Íslands meðalgöngu og eða stuðnings í formi skriflegra athugasemda frá einstökum aðildarríkja EES, að því er fram kemur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert