Atkvæði greidd eftir kosningar

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir.
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir ekki útilokað að takist að ljúka viðræðum við Evrópusambandið um aðild Íslands að sambandinu á þessu kjörtímabili. Það sé hins vegar ljóst að þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn verði ekki haldin fyrr en eftir kosningar.

Össur sagði þetta í viðtali í Kastljósi í kvöld þar sem hann ræddi m.a. um aðildarviðræðurnar. Össur sagði að viðræðurnar hefðu gengið vel og sagðist telja að einmitt vegna kreppunnar í Evrópu væru sóknarfæri fyrir Ísland í aðildarviðræðunum. Leiðtogar ESB væru að taka á vandamálum og menn stæðu frammi fyrir skýrari stöðu varðandi ýmis mál eins og t.d. varðandi evruna. Össur sagðist hafa fulla trú á að evran kæmist í gegnum vandann og upptaka evru væri enn áhugaverður kostur.

Össur sagði þegar hann var spurður hvort það væri trúverðugt fyrir ríkisstjórnina að ganga klofin til þessara viðræðna, að það væri gott að hafa Jón Bjarnason til að halda mönnum við efnið. Hann passaði upp á að menn misstigu sig ekki í viðræðunum við ESB.

„Ég tel að það sé alveg klárt að við náum ekki að ljúka málinu með þjóðaratkvæðagreiðslu við næstu kosningar. Við eigum eftir að skrúbba samninginn fram og til baka eftir að hann verður til. Síðan eru lög í landi sem gera ráð fyrir ákveðnum fresti til að kynna samninginn. Forsætisráðherra hefur sagt að það sé stefnan að ljúka aðildarviðræðunum fyrir kosningar, þ.e. að teikna upp samninginn. Ég tel að það sé ekki útilokað,“ sagði Össur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert