„Útgerðirnar taka fréttir af dauðri síld á Breiðafirði mjög alvarlega og munu leggja sig allar fram um að áhrif veiðanna verði eins lítil og mögulegt er,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, á vef Landssambandsins í tilefni frétta af dauðri síld á Breiðafirði að undanförnu.
Af þessu tilefni hafa útgerðir síldarskipa fundað og farið yfir þær upplýsingar sem fyrir liggja. Haft er eftir Friðriki að á vissum stöðum séu aðstæður til veiðanna erfiðar, þar sem þær séu stundaðar á mjög grunnu vatni. Botnlag sé misjafnt og straumar sterkir sem hafi óhjákvæmilega leitt til þess að nætur hafi rifnað og síld sloppið út jafnvel þó að ýtrustu varúðar hafi verið gætt.
Á vef LÍÚ segir að á undanförnum árum hafi langstærstur hluti íslenska síldarstofnsins haft vetursetu á mjög afmörkuðum svæðum á Breiðafirði. Sem dæmi er nefnt að yfir 700.000 tonn af síld mældust með bergmálsmælingu á Kiðeyjarsundi þegar mest var. Frá því að hin svonefnda „Ichthyophonus hoferi-sýking“ kom upp í stofninum haustið 2008 hafa hundruð þúsunda tonna af síld drepist, m.a. á Breiðafirði.
Friðrik segir að útgerðir síldarskipa leggi áherslu á að umgengni um síldarmiðin verði eins góð og best verður á kosið. Í því skyni hafi verið ákveðið að samstarf útgerðanna um veiðarnar verði enn nánara á næstu vertíð en verið hefur við að miðla afla á milli skipa og til að draga úr hættunni á að óhöpp verði við veiðarnar.