Fréttaskýring: Ekkert rætt við arkitekt Perlunnar

Perlan í Öskjuhlíð.
Perlan í Öskjuhlíð. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ingimundur Sveinsson arkitekt, sem teiknaði Perluna, segir að ekkert hafi verið rætt við sig um hugsanlegar viðbyggingar eða breytingar á Perlunni. Hann sagði að samkvæmt siðareglum Arkitektafélagsins ætti arkitekt að hafa samráð við þann sem teiknaði húsið ef hann ætlaði að gera tillögur um breytingar á því.

Fyrr á þessu ári gerðu erfingjar höfundarréttar Skálholtskirkju athugasemdir við að reist væri hús við hlið kirkjunnar, en engar breytingar átti að gera á kirkjunni sjálfri. Ingimundur sagði að ef hugmyndum um breytingar á Perlunni yrði hrundið í framkvæmd væri það stærra mál en bygging Þorláksbúðar í Skálholti. Væntanlega væri verið að tala um að gjörbreyta ásýnd staðarins. Hann sagðist ekki geta svarað því hvort hann væri á móti því að byggja við Perluna enda hefðu engar teikningar verið kynntar sem hægt væri að leggja mat á. Ingimundur minnti á að samkvæmt gildandi skipulagi væri ekki gert ráð fyrir nýjum byggingum á Öskjuhlíð og óvíst hvort samstaða væri meðal borgarbúa um breytingar á skipulagi svæðisins.

Ingimundur sagði að samkvæmt lögum um höfundarétt væri réttur arkitekta nokkuð sterkur. Hann benti á að fyrir nokkrum árum hefði verið gerð tillaga um að breyta lofti á Kjarvalsstöðum, en arkitekt hússins verið ósáttur við tillöguna. Dómstóll hefði dæmt arkitekt hússins í vil.

Ekkert minnst á skipulag í auglýsingunni

Breytingar á skipulagi Öskjuhlíðarinnar kalla á mikla og tímafreka skipulagsvinnu og ljóst er að henni verður ekki lokið fyrir lok mars.

Orkuveitan auglýsti Perluna til sölu 3. september sl. Í auglýsingunni er ekkert minnst á þann möguleika að byggja við Perluna. Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, segir að fasteignasölu hafi verið falið að annast söluna og svara fyrirspurnum. Allir hafi væntanlega fengið sömu upplýsingar um eignina. Hann segir að öllum sé frjálst að setja fram hugmyndir og menn eigi að sjálfsögðu þær viðskiptahugmyndir sem þeir byggi tilboð sín á. Orkuveitan skrifaði í vikunni undir viljafyrirlýsingu við þann sem átti hæsta tilboðið, en yfirlýsing gildir til 31. mars. Eiríkur segir að sá frestur sem felist í viljayfirlýsingunni snúist eingöngu um að gefa tilboðsgjafa tækifæri til að ljúka hagkvæmniathugun.

Þörf á heildarskipulagi

Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs, segist hafa átt einn fund í síðustu viku með þeim sem áttu hæsta tilboð. Á þeim fundi hafi málið verið kynnt óformlega. Hann sagðist ekki hafa í höndunum teikningar eða upplýsingar sem dygðu til að hann gæti lýst skoðun sinni á verkefninu. „Það hefur verið í umræðunni að fara af stað með heildarsamkeppni um skipulag í Öskjuhlíðinni. Það er þörf á heildarsýn því það hefur ýmislegt verið að gerast báðum megin við hana. Þetta er mikilvægt útivistarsvæði og það gengur fyrir í mínum huga.“

Páll sagði að næsta skref í málinu væri að hópurinn legði fram hugmyndir sínar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert