Víkjandi láni að fjárhæð 656 milljónum króna, sem Stoðir hf. veittu Teymi hf. sumarið 2008, var í dag rift með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.
Lánið var upphaflega veitt í þeim tilgangi að gera stjórnendum Teymis kleift að afskrá félagið úr kauphöllinni og borga hluthöfum fyrir hlut sinn. Stoðir áttu þá stóran hlut í Alfesca hf. og gekk samningurinn út á að selja Teymi allt að 212.000.000 hluti í Alfesca á ríflegum afslætti og lána félaginu fyrir kaupverðinu í þokkabót. Hluthöfum í Teymi stóð því til boða að fá hlutabréf í Alfesca í staðinn fyrir hlutabréfin sín í Teymi.
Tekið var fram í samningnum að lánið væri víkjandi og skyldi víkja fyrir flestum öðrum kröfum á hendur Teymi. Lánið var kúlulán sem skyldi greiðast upp 1. ágúst 2013 og bera 21% ársvexti.
Krafan lenti utan nauðasamnings Teymis
Sem kunnugt er lentu bæði félög, Stoðir og Teymi, í miklum fjárhagskröggum í bankahruninu og hafa síðan þetta gerðist bæði gert nauðasamninga við lánardrottna sína. Nauðasamningur Teymis var samþykktur 4. júní 2009 og með honum var ótryggðum kröfum á hendur félaginu breytt í hlutafé í því. Krafa Stoða vegna hins víkjandi láns stóð hins vegar utan við samninginn.
Með dómnum í dag var því láninu ekki aðeins rift og réttur Stoða til greiðslu frá Teymi að fjárhæð 637 milljóna króna (miðað við gengi bréfa í Alfesca á tilteknum degi) viðurkenndur, heldur var sú krafa gerð jafngild öðrum kröfum sem farið var með samkvæmt nauðasamningnum. Svo er því að skilja á dómnum að fáist krafan ekki greidd, eignist Stoðir þess í stað hlutafé í Teymi áður en yfir lýkur.
Lánið í raun gjöf á kostnað hluthafa í Stoðum
Mikilvæg forsenda dómsniðurstöðunnar var sú að stjórnendum beggja félaga hefði verið fullljóst á þeim tíma sem lánssamningurinn var gerður, að lánið fengist að öllum líkindum ekki greitt til baka. Fjárhagsstaða Teymis hafi verið slík um mitt ár 2008 að félagið gat ekki staðið við skuldbindingar sínar, hvorki í bráð né lengd. Lánið hafi því í raun verið gjöf í skilningi laganna.
Stjórnendur Stoða voru því samkvæmt dómnum að gefa stærstu eigendum Teymis hlutabréf í Alfesca til að borga út smærri hluthafa svo þeir gætu afskráð félagið og átt það áfram. Það hefði hins vegar ekki þjónað hagsmunum hluthafa Stoða.
Baugur beggja vegna borðsins
Meðal gagna málsins voru upplýsingar um 10 stærstu hluthafa í Stoðum og 20 stærstu hluthafa í Teymi þegar samningur var gerður. Þá fór Baugur Group hf., í gegnum félagið Styrk Invest ehf. og tengda aðila, með ráðandi hlut í Stoðum hf. Á sama tíma var Baugur stærsti hluthafinn í Teymi, með ríflega 24% hlut, auk þess sem aðilar tengdir því félagi voru einnig stórir hluthafar.
Ljóst þótti af gögnunum og vitnisburði fyrrverandi fjármálastjóra Teymis fyrir dómi, að náin eigna- og stjórnunartengsl voru á milli stefnanda og stefnda. Vegna náinna tengsla félaganna dró dómurinn þá ályktun að stjórnendum Stoða hafi hlotið að vera kunnugt um erfiða fjárhagsstöðu Teymis.