Ósannfærandi fyrir dómstólum

00:00
00:00

Advice-hóp­ur­inn tel­ur að rík­is­stjórn­in sé ekki sann­fær­andi í því hlut­verki að flytja mál þjóðar­inn­ar fyr­ir EFTA-dóm­stól­um í Ices­a­ve-deil­unni. Í ljósi þess að hún hafi viljað samþykkja það sem hóp­ur­inn kall­ar slak­an samn­ing og leggja hann á þjóðina.

Frosti Sig­ur­jóns­son, rekstr­ar­hag­fræðing­ur, einn Advice-manna bend­ir á að þeir sem hafi greitt at­kvæði gegn samn­ingn­um í þjóðar­at­kvæðagreiðslu í vor hafi gert svo á þeim for­send­um að sá samn­ing­ur hefði verið verri en tapað dóms­mál og enn­frem­ur að mjög ólík­legt væri að Ísland myndi tapa slíku dóms­máli.

Hóp­ur­inn ályktaði í morg­un um ákvörðun rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að fyr­ir­svar máls­ins gagn­vart EFTA-dóm­stól­um lægi hjá ut­an­rík­is­ráðuneyti þrátt fyr­ir bók­un meiri­hluta ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar um að heppi­leg­ast væri að efna­hags- og viðskiptaráðherra héldi áfram að halda utan um málið.

Álykt­un hóps­ins í heild sinni:


Advice-hóp­ur­inn vek­ur at­hygli á því að rík­is­stjórn­in sem taldi rétt að samþykkja Ices­a­ve-samn­ing­ana er í þröngri stöðu, sér­stak­lega hvað varðar að halda uppi vörn­um í mál­inu fyr­ir EFTA-dóm­stóln­um. Hætt er við að rík­is­stjórn, sem kaus að samþykkja slaka samn­inga, sé hvorki sann­færð um traust­an málstað Íslands, né sann­fær­andi frammi fyr­ir dóm­stóln­um.

Draga má í efa að rík­is­stjórn, sem kennd hef­ur verið við „af­leik ald­ar­inn­ar“, geti notið fyllsta trausts þjóðar­inn­ar í mál­inu. Það að ganga gegn bók­un meiri­hluta ut­an­rík­is­nefnd­ar um fyr­ir­svar máls­ins bæt­ir ekki úr skák.

Það er afar óæski­legt að ut­an­rík­is­ráðherra sé ætlað for­ræði á aðild­ar­viðræðum við Evr­ópu­sam­bandið og jafn­framt að gæta hags­muna Íslands í Ices­a­ve-mál­inu. Skorað er á rík­is­stjórn­ina að end­ur­skoða þá ákvörðun.

Að lok­um vill Advice-hóp­ur­inn árétta mik­il­vægi þess að vörn­in verði tek­in föst­um tök­um. Það verður ekki gert án þess að teflt verði fram fær­ustu sér­fræðing­um. Einnig má ekki van­rækja að kynna málstað Íslands fyr­ir er­lend­um fjöl­miðlum og álits­gjöf­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert