Vantar fjölbreyttari úrræði að mati BSRB

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

„Þetta staðfestir margt af því sem BSRB hefur haldið fram síðustu mánuði þótt okkur hafi ekki grunað að þörfin fyrir leiguhúsnæði væri svona gríðarlega mikil," segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, á vef samtakanna í tilefni skýrslu sem Capacent vann fyrir Reykjavíkurborg um stöðu, horfur og möguleika á húsnæðismarkaðnum.

Skýrslan sýnir m.a. að 70% fleiri Íslendingar vilja leigja íbúð en gera það í dag. Um leið þyrfti að fjölga leiguíbúðum um 13 þúsund á höfuðborgarsvæðinu og 16 þúsund á landinu öllu.

BSRB hefur á árinu ítrekað komið tillögum sínum um öflugri leigumarkað á framfæri með það að markmiði að allir landsmenn eigi kost á öruggu húsnæði til lengri tíma á viðráðanlegu verði. Tillögurnar hafa miðað að því að efla almennan leigumarkað og BSRB segir þessa nýju skýrsla sýna svart á hvítu hve mikil þörfin fyrir leiguhúsnæði sé í raun.

„Takmarkaðar upplýsingar eru til um leigumarkaðinn á Íslandi þar sem hann er mjög óskipulagður og hann hefur ekkert verið kannaður fram til þessa. Það eina sem við höfum vitað með vissu er að framboðið á leiguhúsnæði er mjög takmarkað og leiguverðið almennt mjög hátt. Þessi skýrsla varpar svo frekara ljósi á hver þörfin fyrir leiguhúsnæði er í raun," segir Elín Björg á vef BSRB.

Í skýrslunni kemur fram að 18,7% Íslendinga hafi leigt húsnæði um síðustu áramót en hlutfallið var 30% í helstu samanburðarlöndum. Eins og áður var minnst á er svo mikill fjöldi Íslendinga sem ekki er á leigumarkaði nú en vill komast þangað inn.

„Það sýnir okkur að margir vilja losna undan lánum með háum vöxtum og verðtryggðum höfuðstól - og ekki bara þeir sem eiga í greiðsluerfiðleikum heldur líka þeir sem geta staðið í skilum. Mér finnst þetta sýna fram á að fólk vill hafa aðra möguleika en að kaupa sér húsnæði og það er einmitt eitt af því sem að BSRB hefur verið að boða - húsnæðismarkað með fjölbreyttari úrræðum en nú eru í boði og á sanngjörnu og viðráðanlegu verði," segir Elín Björg enn fremur á vef samtakanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka