Engin áhrif á tollheimtuna

Breyting sú á lögum um virðisaukaskatt, að rafrænt afhent vara og þjónusta sem keypt er á netinu beri íslenskan virðisaukaskatt, hefur engin áhrif á tollheimtu samkvæmt upplýsingum frá embætti Tollstjóra.

Líklegt er að ein helstu áhrifin af breytingunni, sem greint var frá á mbl.is fyrr í morgun, verði á verslun með rafbækur, t.d. frá Amazon.com, en sem stendur er ekki lagður neinn tollur á bækur.

Svokallað tollmeðferðargjald, sem margir hafa orðið varir við þegar þeir hafa keypt sér venjulegar prentaðar bækur á Amazon og fengið sendar heim, er hins vegar ekki og verður ekki lagt á rafbækurnar sem fólk halar niður. Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóraembættinu er tollmeðferðargjaldið í raun ekki gjald sem rennur í ríkissjóð þótt nafn þess hljómi svo sannarlega þannig. Það er gjald sem rennur til Póstsins fyrir umstang hans við að koma vörunum í gegnum tollafgreiðslu. Tollmeðferðargjaldið er þannig ekki tollur.

Þetta þýðir að tollmeðferðargjald verður áfram innheimt af prentuðum bókum sem keyptar eru á netinu, en ekki af rafbókum sem halað er niður. Fyrrnefnd breyting á lögunum um virðisaukaskatt átti enda aðeins við um „rafrænt afhenta" vöru og þjónustu, eins og þar segir, en undir það falla ekki prentaðar heimsendar bækur.

Fyrri frétt mbl.is um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert