Kínverski auðjöfurinn Huang Nubo, stjórnarformaður Zhongkun-fjárfestingarfélagsins, hyggst leita kauptækifæra á fasteignamörkuðum Norður-Evrópu og Bandaríkjanna á næstunni. Hann segir Ísland hluta af þessari áætlun.
Rætt er við Huang á vef China Daily, einu af málgögnum kínverska kommúnistaflokksins, þar sem fjárfestirinn skýrir fyrirætlanir sínar.
„Ég stefni á að auka verðmæti eigna okkar í Bandaríkjunum frá því sem nú er eða úr 200 milljónum bandaríkjadala í milljarð dala í náinni framtíð. Nú er góður tími til að leita kauptækifæra á bandaríska fasteignamarkaðnum, sagði Huang.
En gengi bandaríkjadals er nú ríflega 122 krónur og jafngildir síðari upphæðin því rúmlega 122 milljörðum króna.
Hafði blaðið svo eftir Huang að heppilegra væri að kaupa hálfkláraðar eða yfirgefnar fasteignir en land í Bandaríkjunum. Upplýsti hann svo að Zhongkun-félagið ætti í viðræðum um kaup á ferðamannastað í Las Vegas.
Ísland fremst á fjárfestingarlistanum
Huang hefur ekki gefið upp á bátinn að geta fjárfest á Íslandi.
„Við höldum áfram að eiga í samskiptum við viðeigandi ráðuneyti á Íslandi. Í fjárfestingaráætlun minni er gert ráð fyrir að verðmæti fasteigna okkar sem tengjast ferðaþjónustu í Norður-Evrópu, þar með talið á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi muni samanlagt ná tveim milljörðum bandaríkjadala í framtíðinni,“ sagði Huang.
Stefnir auðjöfurinn því á fjárfestingar í þessum geira á Norðurlöndum upp á sem svarar 244 milljarða króna, eða tæplega sjöttung af þjóðarframleiðslu Íslands.