Kúabúum heldur áfram að fækka

 Kúa­bú­um á Íslandi held­ur áfram að fækka, en fækk­un­in er um 3,8% á síðustu tveim­ur árum. Um 100 fjós eru hér á landi þar sem not­ast er við mjaltaþjóna, en þau skila líka mest­um afurðum á hverja kú.

Þetta kem­ur fram í nýrri skýrslu um fjós­gerðir og mjalta­tækni 2009-2011 sem sagt er frá á vef Lands­sam­bands kúa­bænda. Fjöldi fjósa í fram­leiðslu á Íslandi var í októ­ber 2011 659 en var 685 í októ­ber 2009, sem þýðir fækk­un um 3,8% á tveim­ur árum sem er þó minni fækk­un en árin tvö þar á und­an þegar fjós­um fækkaði um 4,9%.

Bása­fjós eru enn al­geng­ust á Íslandi, eða 63,6% allra fjósa, en þeim held­ur þó áfram að fækka hlut­falls­lega. Hlut­fall bása­fjósa með rör­mjalta­kerf­um er hæst á starfs­svæði Ráðgjafaþjón­ustu Húnaþings og Stranda (62,7%), en mest fækk­un fjósa verður á starfs­svæði Búnaðarsam­taka Vest­ur­lands (9,4%).

Hlut­fall lausa­göngu­fjósa með mjaltaþjón­um er hæst á starfs­svæði Leiðbein­ing­armiðstöðvar­inn­ar í Skagaf­irði (32,1%) og 15,0% á land­inu öllu.

Á Íslandi finn­ast enn all­ar grunn­gerðir aðferða við mjalt­ir sem þekkt­ar eru í heim­in­um. Enn til eitt fjós á Íslandi þar sem kýrn­ar eru hand­mjólkaðar og enn eru til níu fjós þar sem kýrn­ar eru mjólkaðar með föt­umjalta­kerf­um.

Sjálf­virk­ir af­tak­ar­ar eru í 81,8% mjalta­bása­fjósa en ein­ung­is í 23,3% fjósa með rör­mjalta­kerfi. Kýr í lausa­göngu eru að jafnaði afurðahærri en kýr í bása­fjós­um. Lausa­göngu­fjós með mjaltaþjón­um eru afurðahæstu bú lands­ins að meðaltali, bæði ef horft er til heild­ar­inn­ar en einnig ef ein­göngu er horft til afurðahæstu búa lands­ins.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert