Kúabúum á Íslandi heldur áfram að fækka, en fækkunin er um 3,8% á síðustu tveimur árum. Um 100 fjós eru hér á landi þar sem notast er við mjaltaþjóna, en þau skila líka mestum afurðum á hverja kú.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um fjósgerðir og mjaltatækni 2009-2011 sem sagt er frá á vef Landssambands kúabænda. Fjöldi fjósa í framleiðslu á Íslandi var í október 2011 659 en var 685 í október 2009, sem þýðir fækkun um 3,8% á tveimur árum sem er þó minni fækkun en árin tvö þar á undan þegar fjósum fækkaði um 4,9%.
Básafjós eru enn algengust á Íslandi, eða 63,6% allra fjósa, en þeim heldur þó áfram að fækka hlutfallslega. Hlutfall básafjósa með rörmjaltakerfum er hæst á starfssvæði Ráðgjafaþjónustu Húnaþings og Stranda (62,7%), en mest fækkun fjósa verður á starfssvæði Búnaðarsamtaka Vesturlands (9,4%).
Hlutfall lausagöngufjósa með mjaltaþjónum er hæst á starfssvæði Leiðbeiningarmiðstöðvarinnar í Skagafirði (32,1%) og 15,0% á landinu öllu.
Á Íslandi finnast enn allar grunngerðir aðferða við mjaltir sem þekktar eru í heiminum. Enn til eitt fjós á Íslandi þar sem kýrnar eru handmjólkaðar og enn eru til níu fjós þar sem kýrnar eru mjólkaðar með fötumjaltakerfum.
Sjálfvirkir aftakarar eru í 81,8% mjaltabásafjósa en einungis í 23,3% fjósa með rörmjaltakerfi. Kýr í lausagöngu eru að jafnaði afurðahærri en kýr í básafjósum. Lausagöngufjós með mjaltaþjónum eru afurðahæstu bú landsins að meðaltali, bæði ef horft er til heildarinnar en einnig ef eingöngu er horft til afurðahæstu búa landsins.