„Liggur á að komast út úr þessu endemis rugli“

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að menn eigi að hætta að tala um tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu eins og Íslendingar fái engu um það ráðið. „Við eigum að sjálfsögðu að segja samninganefndunum hvenær hentar okkur að kjósa.“

Þetta segir Ögmundur í pistli sem er birtur á heimasíðu hans.

„Ef þjóðin segir nei, þá getum við hætt að senda flugvélafarma af starfsfólki fyrir gríðarlega fjármuni  til að fletta pappír suður í Brussel og notað tímann og peningana sem sparast til uppbyggilegra verka. Okkur liggur á að komast út úr þessu endemis rugli. Við skulum hætta að tala um tímasetningu á þjóðaratkvæðagreiðslu einsog við fáum engu  þar um það ráðið, þetta sé nánast komið undir óviðráðanlegu náttúrulögmáli. Við eigum að sjálfsögðu að segja samninganefndunum hvenær hentar okkur að kjósa. Þær hagi sínum störfum í samræmi við það,“ segir Ögmundur.

Ósammála Össuri

Þá segir Ögmundur að margt ágætt hafi komið fram í máli Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra í Kastljósi í gær. Ögmundur tekur hins vegar fram að hann hafi ekki verið sammála Össuri um allt.

„Þannig var ofsagt hjá honum að mínu mati að „þjóðin“ vildi fá að vita hvað kæmi út úr viðræðunum við ESB. Það er líka ofsagt hjá utanríkisráðherra að ESB/EVRU-gulrótin væri nú digrari og litfegurri en áður! Um hið síðara ætla ég ekki að fjölyrða, þar tala fréttir af efnahagsþrengingum og  atvinnuleysi innan Evrópusambandsins og ógöngum evrunnar sínu máli,“ skrifar Ögmundur.

Ögmundur segir að þjóðin sé þrískipt í málinu. Hluti þjóðarinnar vilji ganga í ESB, óháð hvað komi út úr viðræðum um aðild Íslands. Annar hluti þjóðarinnar vilji vita hvað komi út úr viðræðum um undanþágur og tímabundna fresti  frá regluverki  Evrópusambandsins.

Síðan eru það við hin, sem erum andvíg því að Ísland gangi í Evrópusambandið, hvað sem út úr viðræðunum kemur enda sýni reynslan að undanþágur eru sjónarspil  til bráðabirgða,“ segir Ögmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert