Lyfjastofnun hvetur þær konur sem farið hafa í brjóstaaðgerð til þess að hafa samráð við sinn lækni og leita upplýsinga um það hvaða fyrirtæki framleiddi þá sílíkonpúða sem notaðir voru í þeirra aðgerð.
Mbl.is greindi frá því fyrr í vikunni að frönsk heilbrigðisyfirvöld mæltust til þess að 30.000 konur þar í landi létu fjarlægja brjóstapúða, eftir að upp komst að framleiðandinn Poly Implant Prothése (PIP) hefði notað iðnaðarsílikon, en ekki hreint, í sína púða.
Þetta er ekki rétt, heldur mælist lyfjastofnun Frakklands til þess að konur hafi samband við sinn lækni, og að læknar hafi samband við sína sjúklinga, til þess að ræða málið, fara í skoðun og meta hvort rétt sé að fjarlægja púðana. Viðbrögð yfirvalda í öðrum Evrópuríkjum eru hliðstæð og nú sömuleiðis hér á Íslandi.
Möguleg tengsl við aukna tíðni æxla
Nefnd sérfræðinga í Frakklandi hefur vakið máls á því að möguleg tengsl geti verið á milli gölluðu púðanna frá PIP og aukinnar hættu á því að konur fái æxli í brjóst.
Á vef lyfjastofnunar Bretlands segir hins vegar nú í morgun, að fundað hafi verið með fulltrúum frá mörgum öðrum Evrópulöndum í gær og að engar vísbendingar hafi fundist um aukna tíðni æxla í brjóstum kvenna, í þeim löndum þar sem sömu púðar hafa verið notaðir. Þar eru talin upp Holland, Portúgal, Ítalía, Írland, Ungverjaland, Austurríki, Danmörk og Malta.
Franskir læknar hafa fundið átta tilfelli tiltekinna æxla hjá konum sem höfðu gallaða púða frá PIP, en sem fyrr segir hafa allt að 30.000 konur fengið slíka púða þar í landi og því alls óvíst að nokkur tengsl séu þarna á milli. En engu að síður er málið aftur komið í hámæli af þessum sökum.
Einn íslenskur læknir notaði púða frá PIP
Hér á landi fluttist þessi málaflokkur til Lyfjastofnunar frá landlæknisembættinu síðasta vor og hjá stofnuninni er enn unnið að því að ná utan um málaflokkinn og skipuleggja hann. Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að þegar mál PIP kom fyrst upp fyrir tveimur árum hafi komið í ljós að einn læknir hafði flutt inn púða frá fyrirtækinu en ekki hafi verið vitað hvort það voru umræddir púðar.
„Á sínum tíma var áhættan metin, á því að fjarlægja púðana úr öllum konum og skipta um þá. Það var metin meiri áhætta af því en að hinu, að skoða þær og láta vita af málinu. Það var niðurstaðan þá,” segir Rannveig.
„Við bendum konum á að hafa samband við lækninn sinn til að athuga hvort púðarnir hafi verið frá þessu fyrirtæki, og ræða við lækninn um þetta,” bætir hún við.
Færri en 100 konur í Danmörku
Lyfjastofnun Danmerkur telur að færri en 100 konur þar í landi hafi fengið umrædda púða frá PIP grædda í sig. Á heimasíðu stofnunarinnar segir nánar til tekið að þær gerðir púða sem um ræðir hafi verið IMGHC-TX, IMGHC-MX og IMGHC-LS.
Tilmælin sem lyfjastofnun Frakklands hefur sent út eru þessi, samkvæmt þýðingu blaðamanns á tilkynningu frá stofnuninni:
„Konur með viðkomandi púða ættu að fara í læknisskoðun og ómskoðun á sex mánaða fresti, þar sem sérstaklega séu skoðuð brjóst og eitlar. Hvers kyns rof, grunur um rof eða leka úr púða, ætti að leiða til þess að hann verði fjarlægður og sömuleiðis hinn púðinn, þótt ekkert hafi fundist að honum.
Stofnunin mælir með því að konur hafi samband við lækninn sinn til að ræða möguleikann á fjarlægingu púðanna, jafnvel þótt ekki hafi fundist merki um leka. Þær konur sem það gera ættu að hugleiða hvað sé réttast að gera með hliðsjón af persónulegum aðstæðum þeirra, tilfinningum, aldri púðanna og væntingum þeirra um útlit brjóstanna eftir fjarlægingu. Þær ættu svo að taka ákvörðun eftir að hafa í sameiningu með lækninum sínum metið bæði áhættuna og ábatann af því að fjarlægja púðann.”
Tilkynning lyfjastofnunar Danmerkur.