„Við hittum til dæmis sjávarútvegsráðherrann sem kom mér fyrir sjónir sem þvermóðskufyllsta afturhald frá fimmta áratugnum, nokkurn veginn frá Stalínstímanum, sem ég hef nokkurn tímann rekist á í lýðræðisríki,“ sagði Robert Atkins, þingmaður breska Íhaldsflokksins á þingi Evrópusambandsins, á fundi í utanríkismálanefnd þess sem fram fór á sl. þriðjudag þar sem umsókn Íslands um inngöngu í sambandið var rædd en upptaka frá fundinum hefur verið birt á netinu.
Atkins kom til Íslands í september síðastliðnum ásamt sendinefnd þingmanna af þingi Evrópusambandsins til þess að kynna sér aðstæður hér vegna umsóknar Íslands um inngöngu í sambandið og ræddu þeir meðal annars við Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Tilefni ummæla Atkins var andstaða Jóns við inngöngu í Evrópusambandið. Sagði Atkins að komið hefði skýrt fram í máli Jóns að ekki yrði af inngöngu Íslands í sambandið á meðan hann drægi andann og lét breski þingmaðurinn þess getið í framhaldinu að nefndin hefði rætt við fleiri íslenska stjórnmálamenn sem hefðu verið af sömu manngerð og ráðherrann.