Söfnuðu milljónum fyrir litlar hetjur

Hópurinn þegar lokauppgjör söfnunarinnar var kynnt: F.v. Guðmundur, Alma, Sveinn, …
Hópurinn þegar lokauppgjör söfnunarinnar var kynnt: F.v. Guðmundur, Alma, Sveinn, Signý, Gunnar Hrafn og Óskar Örn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri SKB. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Rúmar 15 milljónir króna söfnuðust í átakinu „Meðan fæturnir bera mig,“ sem lauk nú í desember en það hófst 2. júní síðastliðinn þegar tvenn hjón lögðu hlaupandi af stað hringveginn til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna.

„Hjónin Signý Gunnarsdóttir og Sveinn Benedikt Rögnvaldsson gerðu sér væntanlega ekki í hugarlund hversu stórkostlegt afrek þau ættu eftir að vinna þegar þau ákváðu að hlaupa hringveginn í kringum Ísland til styrktar SKB síðasta sumar,“ segir í tilkynningu frá styrktarfélaginu.

Sonur Signýjar og Sveins, Gunnar Hrafn 5 ára, greindist með bráðahvítblæði í janúar 2010 og vildu þau með þessu átaki sínu þakka fyrir þann góða stuðning sem þau fengu á meðan erfiðri meðferð hans stóð.

Þau fengu Ölmu Maríu Rögnvaldsdóttur, systur Sveins, og mann hennar, Guðmund Gunnarsson, með sér í lið og luku hlaupinu í Reykjavík þann 16. júní.

„Mamman, sem var ritari hópsins, hélt samviskusamlega dagbók sem birtist á heimasíðu átaksins og fór hún þar einstaklega fögrum orðum - í bland við einlægni sem fékk jafnvel hörðustu karlmenni til að tárfella - um SKB, gang hlaupsins, viðtökurnar og síðast en ekki síst hetjurnar sem þau hlupu fyrir dag hvern.“

„Fjöldi fólks tók þátt í hlaupinu allt í kringum landið og var í senn einstakur stuðningur og góður félagsskapur fyrir fjórmenningana sem lögðu svo mikið á sig til að klára verkefnið með glæsilegum hætti,“ segir Óskar Örn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri SKB.

„Öllu þessu fólki, sem og þeim sem studdu verkefnið með fjárframlögum, eru færðar innilegar þakkir fyrir sinn þátt í að gera verkefnið eftirminnilegt. Umfram allt þökkum við einstakt framlag Signýjar, Sveins, Ölmu og Guðmundar. Það verður ávallt í minnum haft.“

Alls söfnuðust 15.027.506 krónur í átakinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert