Um 1.000 umsóknir hafa verið afgreiddar í jólaaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar nú í desember. Ætla má að um 2.800 einstaklingar um allt land njóti góðs af.
„Markhópurinn var einstaklingar og barnafjölskyldur um allt land nema í Reykjavík, þar sem fleiri hjálparsamtök starfa, þar aðstoðuðum við barnafjölskyldur með mat. Afhent voru ný inneignarkort í matvöruverslunum og lagt inn á eldri kort og fór upphæð eftir fjölskyldustærð og fjárhagsstöðu,“ segir í tilkynningu.
„Hjálparstarfið á gott samstarf við Rauða krossinn í Reykjavík sem hefur lagt lið með fjármunum og sjálfboðaliðum. Einnig höfðu Hjálparstarfið, mæðrastyrksnefndir og Rauða kross-deildir í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ og Mosfellsbæ sameiginlega skráningu umsækjenda sem skipti miklu máli til að nýta aðstoðina sem best og ná til allra sem þurfa hjálp. Hjálparstarfið og ofangreind samtök hafa þannig afgreitt um 1.400 jólaumsóknir samtals.“