Virðisaukaskattur á netinu

Margir hafa keypt sér rafbækur á góðum kjörum á Amazon.com, …
Margir hafa keypt sér rafbækur á góðum kjörum á Amazon.com, til að lesa í lestölvum. Nú verður lagður virðisaukaskattur á þær, og annað sem keypt er á netinu. Reuters

Þeir sem kaupa sér vörur og þjónustu á netinu þurfa von bráðar að borga virðisaukaskatt af nánast öllu því sem þeir kaupa þar. Í september síðastliðnum voru samþykkt lög á Alþingi, sem fólu í sér þá breytingu á lögum um virðisaukaskatt, að allir sem selja „rafrænt afhenta þjónustu“ til fólks sem býr á Íslandi eða fyrirtækja sem hafa hér starfsstöðvar, þurfa að skrá sig hjá hér lendum skattayfirvöldum og skila af sölunni virðisaukaskatti.

Í lögunum felst þó að þeir sem selja fyrir milljón krónur eða minna á hverju 12 mánaða tímabili skuli undanþegnir skattskyldunni og vekur það því spurningar um t.d. hvort sala á uppboðsvefnum ebay.com teljist skattskyld eða ekki.

Hins vegar er það ekki bara neysluvarningur sem seldur er á netinu heldur ýmiskonar tölvuþjónusta og hugbúnaðarþjónusta sem fólk og fyrirtæki nota við vinnu sína.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu er unnið að því þar að setja reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis. Ekki hefur þar orðið vart við annað en samstarfsvilja frá stórum netfyrirtækjum á borð við Amazon.com, sem viðmælandi mbl.is segir vön því að skrá sig í þeim löndum þar sem kaupendur þjónustunnar búa. ESB hefur sett hliðstæða reglu og sömuleiðis tók Noregur upp svipað fyrirkomulag fyrir nokkru. 

Íslenskur notandi tölvuþjónustu Amazon, eða Amazon Web Services, sendi mbl.is tölvupóst vegna tilkynningar sem hann fékk frá fyrirtækinu um að það myndi byrja að innheimta 25,5% virðisaukaskatt af þjónustunni frá og með 1. janúar, þar sem hann væri skráður á Íslandi. Hann kveðst nota þjónustuna bæði í vinnu sinni og persónulega og þetta komi því illa við hann.

Þótt fyrirtæki séu aðeins í startholunum núna við að byrja skattinnheimtuna, er lagaskyldan þegar komin á, með fyrrnefndum lögum. Ákvæðið kom inn í lögin frá efnahags- og skattanefnd Alþingis, samkvæmt upplýsingum úr fjármálaráðuneytinu, en ákvæðið hafði áður verið lagt fram sem lagafrumvarp á vorþingi en ekki komist í gegn vegna tímaleysis í þinglok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert