Frétt um eldgos sú mest lesna

Gosmökkurinn séður frá Kirkjubæjarklaustri.
Gosmökkurinn séður frá Kirkjubæjarklaustri. mynd/Sigurlaug Linnet

Frétt um að eldgos væri hafið í Grímsvötnum var sú frétt, sem flestir lásu á mbl.is á árinu sem er að líða. Sérstakur vefur um helstu fréttir ársins hefur nú verið opnaður.

„Það stígur upp hár hvítur gufubólstur yfir Vatnajökli,“ er haft eftir Örlygi Sigurjónssyni, leiðsögumanni, í fréttinni, sem birtist klukkan 19:25 þann 21. maí. Með fréttinni er mynd Sigurlaugar Linnet af upphafi gossins en sú mynd birtist í kjölfarið í fjölmiðlum víða um heim.

Sú frétt sem næstflestir lásu var um nýja bók bandaríska blaðamannsins Michaels Lewis um fjármálakreppuna þar sem Íslendingar léku eitt aðalhlutverkið og í þriðja sæti er frétt um brúðkaup íslensku söngkonunnar Önnu Mjallar Ólafsdóttur og bandaríska bílasalans Cals Worthingtons í apríl. 

Sú frétt mbl.is sem mest var bloggað um á árinu var um að Hæstiréttur hefði ógilt stjórnlagaþingskosninguna sem fór fram í lok ársins 2010. Í öðru sæti var frétt um að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefði ákveðið að synja nýjum Icesave-lögum staðfestingar og í þriðja sæti var frétt um að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, teldi nauðsynlegt að ræða breytingar á 26. gr. stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta.

Annáll ársins 2011

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert