Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sakar Samtök ferðaþjónustunnar að reyna að rústa frjálsum félagasamtökum sem rekin eru af áhugafólki um land með því að gagnrýna að þau séu ekki skattlögð eins og aðrir sem reka gistiþjónustu.
Um áramót tekur gildi nýr skattur, gistináttaskattur, en hann felur í sér 100 króna skatt á alla þá sem gista á hótelum eða gistiheimilum. Ferða- og útivistarfélög og orlofshús stéttarfélaga eru undanþegin skattinum. Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) sendu frá sér tilkynningu í vikunni þar sem þessi skattheimta er gagnrýnd.
„Það er í mínum huga dapurlegt að barátta SAF skuli vera farin að snúast um að reyna að rústa frjálsum félagasamtökum sem rekin eru af áhugafólki um land og náttúru og að SAF hafi ekki dýpri skilning á samfélaginu en að telja að ferðalög um og gisting á Íslandi eigi sér ekki tilverurétt nema í hagnaðarskyni fyrir einhverja aðra,“ segir Þór á heimasíðu sinni.
„Gróðavon margra er vissulega sterk en afstaða SAF í þessu máli er óábyrg og klén og með því að leggja til atlögu við stéttarfélög sem með atorku og eljusemi hafa í gegnum áratugi byggt upp net sumarhúsa fyrir sína félagsmenn eru SAF komin út fyrir öll velsæmismörk. Gróðahyggja ferðaþjónustunnar hefur gert það að verkum að fjöldi landsmanna hefur einfaldlega ekki efni á að gista úti á landi nema í sumarhúsum eigin stéttarfélaga og það að þriðja flokks gistiaðstaða á vegum SAF úti á landi á Ísland skuli eftir óskiljanlegum leiðum vera skilgreind sem fjögurra stjörnu gistiaðstaða og verðlögð dýrar en hótelherbergi á Manhattan segir allt sem þarf. Rétt er að minnast einnig á hamborgara á 2.300 kr. og steikt bleikjuflak á 3.600 kr. úr því að SAF telur félagsmenn sína svona illa haldna. Á ensku heitir slík verðlagning „rip-off“ en ég leyfi ykkur að finna orðatiltækinu þýðingu á önnur mál sem og stað (vonandi) í auglýsingum næsta árs.“
Þór segir að þessi skattlagning sé ekki geðþóttaákvörðun eins og SAF haldi fram heldur mjög vel ígrunduð og yfirveguð ákvörðun um „að þeir sem ætla sér að græða fé á okkar undursamlegu náttúru og landi geti ekki nýtt hana sér að kostnaðarlausu og þetta er einnig algjörlega eðlileg hagfræðileg nálgun um að auðlindarentan sé skattlögð sem næst notkuninni.“