Forsætisnefnd Alþingis hefur ekki afgreitt beiðni frá umhverfis- og samgöngunefnd þingsins um að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands verði fengin til þess að vinna óháða úttekt á Vaðlaheiðargöngum. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, staðfestir þetta í samtali við Morgunblaðið.
Ríkisendurskoðun hafði áður verið beðin að taka að sér verkefnið en embættið hafnaði því hins vegar í síðasta mánuði, einkum á þeim forsendum að það væri ekki hlutverk þess að gera það. Því var ákveðið að óska eftir því að Hagfræðistofnun tæki verkefnið að sér.
„Þetta hefur bara verið sett í bið og málið saltað og verður væntanlega ekki tekið aftur fyrir fyrr en um miðjan janúar. Ég á ekki von á að forsætisnefndin komi saman næst fyrr en þá. Þannig að við erum bara í biðstöðu og að bíða eftir því að fá grænt ljós á þessa óháðu úttekt,“ segir Guðfríður.
Hún segist hafa fengið þær skýringar frá forsætisnefnd að beðið væri eftir niðurstöðu um málið frá fjármálaráðuneytinu sem sé furðulegt í ljósi þess að það hafi verið Alþingi sem sett hafi fyrirvara við það og viljað fá fram svör við ákveðnum spurningum. hjorturjg@mbl.is