Ósátt við hækkun leikskólagjalda

Leikskólabörn í Urðarhóli, Kópasteini og Marbakka
Leikskólabörn í Urðarhóli, Kópasteini og Marbakka

Samtök foreldra barna í leikskólum Kópavogs, SAMLEIK, mótmæla 7% hækkun á gjaldskrá leikskólanna, sem bæjaryfirvöld ákváðu nýlega og tekur gildi hinn 1. janúar 2012.

Þessi hækkun kemur ofan á mikla hækkun leikskólagjalda um síðustu áramót. Þá hækkuðu gjöldin í Kópavogi mest á landinu öllu, eða um 15-17% miðað við átta tíma vistunardag en um 30% miðað við níu tíma vistun.

„SAMLEIK sér einnig ástæðu til að mótmæla vinnubrögðum bæjaryfirvalda í Kópavogi. Foreldrum leikskólabarna er ekki gefinn nokkur fyrirvari til að mæta auknum álögum. Þá hefur ekkert samráð verið haft við foreldra né upplýst um þörfina fyrir að hækka gjöldin eftir hina miklu hækkun fyrir aðeins ári síðan.

Margar fjölskyldur eiga erfitt með að láta enda ná saman í því ástandi sem nú er á vinnumarkaðinum og í þjóðfélaginu. Þótt hækkun á gjaldskrá leikskóla Kópavogs sé ekki eins mikil að þessu sinni og um síðustu áramót munar marga um þær fjárhæðir sem um er að ræða, ekki hvað síst þar sem hækkunin er enn á ný umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Þess vegna hvetur SAMLEIK bæjaryfirvöld í Kópavogi eindregið til að endurskoða ákvörðun sína. Það er ekki á bætandi þær álögur sem fjölskyldur hafa þurft að taka á sig að undanförnu," segir í tilkynningu frá SAMLEIK.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert