Alþingismenn og ráðherrar mega eiga von á launauppbót fljótlega á nýju ári eftir ákvörðun kjararáðs um að afturkalla launalækkun frá 1. janúar 2009. Ákvörðunin gildir frá og með 1. október síðastliðnum, og eiga ráðamenn því uppsöfnuð laun fyrir október, nóvember og desember, en það verður á könnu fjármálaráðuneytisins að ákvarða hvenær og hvernig þau verða greidd út.
Ákvörðun kjararáðs þýðir að forsætisráðherra fær nú aftur rúma 1,1 milljón króna í mánaðarlaun fyrir dagvinnu, líkt og var fyrir hrun en frá og með 1. janúar 2009 lækkuðu laun forsætisráðherra um 15% niður í tæpar 900 þúsund kr. Sú lækkun er nú gengin til baka, afturvirkt til 1. október, og má því ætla að Jóhanna Sigurðardóttir eigi uppsafnaða rúma hálfa milljón í vangoldin laun og aðrir ráðherrar rúm 400 þúsund hver.
Launalækkanirnar árið 2009 áttu frá upphafi aðeins að vera tímabundnar, til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs vegna kreppunnar. Í lok júní í sumar var ákvörðunin tekin til endurskoðunar en þá taldi kjararáð ekki ástæðu til að afturkalla launalækkunina. Þetta var gagnrýnt harðlega af Félagi forstöðumanna ríkisins, sem sagði það brot á lögum um kjararáð að fresta hækkun launa forstöðumanna með hliðsjón af launaþróun síðustu missera.
„Þegar júníhækkunin kom inn í almenna kjarasamninga höfðum við ekki þær upplýsingar að við treystum okkur til þess að fara út í þetta. En þær upplýsingar höfum við hins vegar núna. Laun þessa hóps hafa ekkert hreyfst allt þetta ár, fyrr en núna þegar við sjáum að hreyfing hefur orðið á öðrum hópum,“ segir Svanhildur Kaaber, formaður kjararáðs, aðspurð hvað hafi breyst síðan í sumar til að gefur tilefni til að hækka launin núna. Kjararáði beri að gæta þess að laun þeirra sem undir það heyra séu í samræmi við laun sambærilegra hópa í þjóðfélaginu.
Forseti Íslands fór einnig fram á það við kjararáð á sínum tíma að laun hans yrðu lækkuð á sama hátt og forsætisráðherra. Kjararáð hafnaði beiðninni á þeim forsendum að slík launalækkun væri óheimil samkvæmt stjórnarskrá. Ólafur Ragnar Grímsson náði í kjölfarið samkomulagi við þáverandi fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, um 15% launalækkun. Afturköllun kjararáðs nú á því ekki við um forsetann.
Samkvæmt upplýsingum frá forsetaembættinu hefur forsetinn ekki farið þess á leit við fjármálaráðuneytið að laun hans verði hækkuð aftur.
Í kjölfar ákvörðunar kjararáðs hefur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja farið fram á launaleiðréttingar til jafns við ráðherra, þingmenn og embættismenn, þar sem ákvörðun hljóti að vera fordæmisgefandi. „Í kjölfar efnahagshrunsins missti fjöldi félagsmanna bandalagsins vinnuna og aðrir þurftu að taka á sig tímabundnar launalækkanir og skert starfshlutfall,“ segir í yfirlýsingu. Þar sem kjararáð hafi nú riðið á vaðið með leiðréttingar hjá ákveðnum hópi opinberra starfsmanna krefjist BSRB þess sama og muni fara fram á viðræður við fjármálaráðherra um hvernig staðið verði að því.