Hætta snjóruðningi um kl. 17

Snjóruðningstæki Vegagerðarinnar verða á ferðinni fram undir kl. 17 í dag á helstu leiðum ef aðstæður leyfa. Eftir það verður ekki reynt að halda leiðum opnum. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni virðist spá um vont veður og erfiða færð á vegum í dag ætla að ganga eftir.

Stöðugt hefur verið hringt í síma Vegagerðarinnar í dag til að fá upplýsingar um færð á vegum og um þjónustu snjóruðningstækja. Þegar er komið vont veður víða um land og færð farin að spillast. Víða er hlýtt í veðri og því má búast við slæmri hálku.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að það sé hálka á Hellisheiði og hvasst. Búið er að ryðja heiðina og bjarga bílum sem voru þar sátu fastir snemma í morgun. Blint er hins vegar á heiðinni og mjög hvasst. Ekki er ráðlegt að vera þar á ferð á vanbúnum bílum.

Hálka er einnig í Þrengslum og víðast hvar á Suðurlandi. Flughált er þó á þjóðvegi 1 á milli Þjórsár og Markarfljóts.

Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og hálka eða hálkublettir á flestum vegum á Reykjanesi. Þæfingsfærð er á Suðurstrandarvegi.

Snjóþekja er í Borgarfirði og Dölum. Verið er að moka milli Grundarfjarðar og Stykkishólms en vestan Grundarfjarðar er ófært og eins á Fróðárheiði og Útnesvegi. Stórhríð og ófærð er í Álftafirðinum.

Ekkert ferðaveður er á sunnanverðum Vestfjörðum né heldur á Þröskuldum eða Steingrímsfjarðarheiði. Ennisháls er þungfær.

Á Norðurlandi er víða mikil ofankoma og blint. Stórhríð er á Tjörnesi og óveður á  Hólasandi og Mývatnsöræfum.

Hálka er á flestum vegum á  Austurlandi en einnig flughált. Fjarðarheiði er þungfær.
Mjög blint er á kafla á Fagradal og óveður á Vatnsskarði eystra og þar er ófært. Varað er við flughálku víða á Suðausturlandi.

Frá veðurfræðingiVegagerðarinnar:


Hríðarveður, skafrenningur og takmarkað skyggni fram eftir degi um norðvestanvert landið frá Snæfellsnesi vestur um og norður í Eyjafjörð.  Suðvestan- og sunnanlands hefur hlánað.  Hvöss S-átt í fyrstu, en lægir  um tíma fyrir hádegi. Á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum gengur í NV storm 20 til 25 m/s um kl. 13 með krapahríð, en gengur niður síðdegis.

Mjög hvasst á Suðurlandi og hviður allt að 35-40 m/s undir Eyjafjöllum frá því um kl. 14 til 17.  Á fjallvegum Austfjarða má gera ráð fyrir stórhríðarveðri nú fyrir hádegi en gengur niður og hlánar um miðbik dagsins. Gengur í N- og NV-storm með snjókomu og skafrenningi norðanlands um kl. 16 til 18 og norðaustan- og austanlands heldur síðar eða um kl. 19 til 21 þá með snörpum hviðum sunnan undir Vatnajökli og á Austfjörðum fram á nóttina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert