Hætta snjóruðningi um kl. 17

Snjóruðnings­tæki Vega­gerðar­inn­ar verða á ferðinni fram und­ir kl. 17 í dag á helstu leiðum ef aðstæður leyfa. Eft­ir það verður ekki reynt að halda leiðum opn­um. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Vega­gerðinni virðist spá um vont veður og erfiða færð á veg­um í dag ætla að ganga eft­ir.

Stöðugt hef­ur verið hringt í síma Vega­gerðar­inn­ar í dag til að fá upp­lýs­ing­ar um færð á veg­um og um þjón­ustu snjóruðnings­tækja. Þegar er komið vont veður víða um land og færð far­in að spill­ast. Víða er hlýtt í veðri og því má bú­ast við slæmri hálku.

Í til­kynn­ingu frá Vega­gerðinni seg­ir að það sé hálka á Hell­is­heiði og hvasst. Búið er að ryðja heiðina og bjarga bíl­um sem voru þar sátu fast­ir snemma í morg­un. Blint er hins veg­ar á heiðinni og mjög hvasst. Ekki er ráðlegt að vera þar á ferð á van­bún­um bíl­um.

Hálka er einnig í Þrengsl­um og víðast hvar á Suður­landi. Flug­hált er þó á þjóðvegi 1 á milli Þjórsár og Markarfljóts.

Hálku­blett­ir eru á Reykja­nes­braut og hálka eða hálku­blett­ir á flest­um veg­um á Reykja­nesi. Þæf­ings­færð er á Suður­strand­ar­vegi.

Snjóþekja er í Borg­ar­f­irði og Döl­um. Verið er að moka milli Grund­ar­fjarðar og Stykk­is­hólms en vest­an Grund­ar­fjarðar er ófært og eins á Fróðár­heiði og Útnes­vegi. Stór­hríð og ófærð er í Álftaf­irðinum.

Ekk­ert ferðaveður er á sunn­an­verðum Vest­fjörðum né held­ur á Þrösk­uld­um eða Stein­gríms­fjarðar­heiði. Enn­is­háls er þung­fær.

Á Norður­landi er víða mik­il ofan­koma og blint. Stór­hríð er á Tjör­nesi og óveður á  Hólas­andi og Mý­vatns­ör­æf­um.

Hálka er á flest­um veg­um á  Aust­ur­landi en einnig flug­hált. Fjarðar­heiði er þung­fær.
Mjög blint er á kafla á Fagra­dal og óveður á Vatns­skarði eystra og þar er ófært. Varað er við flug­hálku víða á Suðaust­ur­landi.

Frá veður­fræðingiVega­gerðar­inn­ar:


Hríðarveður, skafrenn­ing­ur og tak­markað skyggni fram eft­ir degi um norðvest­an­vert landið frá Snæ­fellsnesi vest­ur um og norður í Eyja­fjörð.  Suðvest­an- og sunn­an­lands hef­ur hlánað.  Hvöss S-átt í fyrstu, en læg­ir  um tíma fyr­ir há­degi. Á höfuðborg­ar­svæðinu og Suður­nesj­um geng­ur í NV storm 20 til 25 m/​s um kl. 13 með krapa­hríð, en geng­ur niður síðdeg­is.

Mjög hvasst á Suður­landi og hviður allt að 35-40 m/​s und­ir Eyja­fjöll­um frá því um kl. 14 til 17.  Á fjall­veg­um Aust­fjarða má gera ráð fyr­ir stór­hríðarveðri nú fyr­ir há­degi en geng­ur niður og hlán­ar um miðbik dags­ins. Geng­ur í N- og NV-storm með snjó­komu og skafrenn­ingi norðan­lands um kl. 16 til 18 og norðaust­an- og aust­an­lands held­ur síðar eða um kl. 19 til 21 þá með snörp­um hviðum sunn­an und­ir Vatna­jökli og á Aust­fjörðum fram á nótt­ina.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert