Ökumenn í vandræðum á Hellisheiði

Mynd úr myndasafni.
Mynd úr myndasafni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björgunarsveitir voru sendar upp á Hellisheiði í morgun til að aðstoða bíla sem sátu þar fastir. Lögreglan segir að heiðin sé hálfófær og varar fólk við að fara af stað nema að hafa áður leitað eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um færð og veður.

Lögreglu á Selfossi bárust á milli kl. 5-6 í morgun upplýsingar um að 3-4 bílar sætu fastir á Hellisheiði og voru björgunarsveitarmenn beðnir að fara og aðstoða þá. Að sögn lögreglu hefur snjóað mikið á heiðinni og hún því ófær fyrir smærri bíla. Lögreglan biður fólk að fara ekki af stað fyrr en Vegagerðin hefur metið aðstæður og eins að fylgjast vel með veðurspá.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að spáð sé vonskuveðri á öllu landinu í dag og líklegt að færð spillist víða á vegum.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir það sé þæfingsfærð á Hellisheiði en hálka í Þrengslum og víðast hvar á Suðurlandi. Flughált er á þjóðvegi 1 á milli Þjórsár og Markarfljóts.

Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og hálka eða hálkublettir á flestum vegum á Reykjanesi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert