Móðgandi og óviðeigandi ummæli

William Dartmouth
William Dartmouth mbl.is

„Ég verð að segja sem Breti og með tilliti til sambands okkar við Ísland að þessi ummæli voru gjörsamlega óviðeigandi og að hann ætti að biðja bæði ráðherrann og íslensku þjóðina tafarlaust afsökunar á þeim,“ segir William Dartmouth, þingmaður á þingi Evrópusambandsins fyrir Breska sjálfstæðisflokkinn, í samtali við Morgunblaðið.

Eins og greint var frá í blaðinu á fimmtudag lét Robert Atkins, þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópusambandsþinginu, þau ummæli falla á fundi utanríkismálanefndar þingsins fyrr í vikunni að Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefði komið honum fyrir sjónir í heimsókn nefndar á vegum þingsins til Íslands síðastliðið haust „sem þvermóðskufyllsta afturhald frá sjötta áratugnum, nokkurn veginn frá Stalínstímanum,“ sem Atkins hefði nokkurn tímann rekist á í lýðræðisríki.

Skiljanlegar áhyggjur

Dartmouth var einnig á fundi utanríkismálanefndarinnar og mótmælti því þar að Jón væri sakaður um stalínisma fyrir þá sök eina vera ekki sammála Atkins um að Íslendingar ættu að ganga í Evrópusambandið. „Staðreyndin er einfaldlega sú að það er fullkomlega eðlilegt og skiljanlegt að íslenski sjávarútvegsráðherrann hafi áhyggjur af því hvaða áhrif það hefði á miðin í kringum Ísland ef landið gengi í sambandið. Það var einfaldlega algerlega út í hött að saka hann um stalínískt afturhald vegna þess,“ segir Dartmouth.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert