Rúta fauk út af við Pétursey

Mynd úr myndasafni.
Mynd úr myndasafni. mbl.is/Guðmundur Karl

Rúta með 28  erlendum ferðamönnum fauk út af veginum við Pétursey um miðjan dag í dag. Enginn slasaðist og rútan, sem endaði út í skurði, er óskemmd.

„Það er búið að vera mannskaðaveður hér,“ segir Guðmundur Ingi Ingason varðstjóri hjá lögreglunni á Hvolsvelli. Við Reynisfjall fór vindurinn upp í 47 m/s.

Óhappið átti sér stað vestan við Vík. Björgunarsveitarmenn frá björgunarsveitinni Víkverja aðstoðaði við að ferja fólkið að Hótel Dyrhólaey, en fyrirhugað er að það bíði af sér veðrið. Guðmundur segir að veðrið sé að ganga niður.

Nokkrir bílar lentu í vandræðum á Suðurlandi í dag. Björgunarsveitarmenn frá Víkverja fóru í dag að keyra út jólapökkum, en voru fljótlega komnir í það hlutverk að aðstoða fólk á vanbúnum bílum. Þeir voru því nálægir þegar rútan fauk út af.

Veðrið var mjög slæmt við Vík. Þakplötur fuku af nokkrum húsum í þorpinu. Þá brotnaði rafmagnsmastur og fá íbúar rafmagn frá vararafstöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert