Mikill veðurofsi hefur verið á Austurlandi í kvöld og hafa stór skip losnað frá bryggju í Neskaupsstað. Björgunarsveitarmönnum tókst að koma í veg fyrir að skipin rækju frá bryggju.
„Það munaði ekki miklu að illa færi. Tvö skip losnuðu og sneru þvert á bryggjuna. Annað hékk á bandi í skut og hitt í stefni. Þau hefðu ekki haldið lengi svona í þessu veðri,“ sagði Daði Benediktsson björgunarsveitarmaður í Neskaupsstað.
Upp úr kl. 19 var Geisli, björgunarsveitin á Fáskrúðsfirði, kölluð út til að aðstoða rútu sem sat föst. Gerpir á Neskaupsstað var síðan kölluð út rétt fyrir kl. 21 í kvöld þar sem frystitogari og flutningaskip voru að slitna frá bryggju. Björgunarsveitarmönnum tókst að koma böndum á skipin og náðu að bjarga þeim áður en þau slitnuðu alveg frá bryggju.
Veðrið á Neskaupstað hefur verið snælduvitlaust og eru klæðningar og fleira að losna af húsum. Auk þess eru lausir hlutir farnir af stað. Bílskúrshurð fauk upp í húsi björgunarsveitarinnar á Neskaupsstað og rúður brotnuðu en við það skemmdist björgunarbátur sveitarinnar.
Daði sagði að enginn hefði slasast í þessum atgangi. Fólk héldi sig innan dyra meðan veðrið gengi niður.
Gert er ráð fyrir að björgunarsveitir verða að störfum fram eftir kvöldi á Austurlandi meðan veðrið gengur yfir. Ekkert ferðaveður er núna á Austurlandi og hvetur Slysavarnafélagið Landsbjörg landsmenn til að leggja ekki í ferðalög meðan veðrið gengur yfir og fylgjast vel með veðurspám.