„Það verður snarvitlaust veður á höfuðborgarsvæðinu um miðjan dag,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Mjög djúp lægð er að fara yfir landið og segir Einar mjög mikill strengur fylgi í kjölfar lægðarinnar.
Einar hefur tekið saman upplýsingar um hvernig líklegt sé að veður þróist í dag. Hann segir að hríðarveður, skafrenningur og takmarkað skyggni verði fram eftir degi um norðvestanvert landið frá Snæfellsnesi vestur umog norður í Eyjafjörð.
Hann segir að suðvestan- og sunnanlands hafi hlánað. Það verði hvöss sunnanátt í fyrstu, en síðan lægi um tíma fyrir hádegi. Á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum gangi í NV storm 20 til 25 m/s um kl. 13 með krapahríð. Veðrið gangi síðan niður síðdegis.
Mjög hvass verður verður á Suðurlandi og hviður verði allt að 35-40 m/s undir Eyjafjöllum frá því um kl. 14 til 17. Á fjallvegum Austfjarða má gera ráð fyrir stórhríðarveðri nú fyrir hádegi en gengur niður og hlánar um miðbik dagsins. Gengur í N- og NV-storm með snjókomu og skafrenningi norðanlands um kl. 16 til 18 og norðaustan og austanlands heldur síðar eða um kl. 19 til 21 þá með snörpum hviðum sunnan undir Vatnajökli og á Austfjörðum fram á nóttina.
Einar segir að veður verði vont um allt land, en sérstaklega sé útlit fyrir vont veður á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum um hádegisbil.