Fjölskyldan saman við búðarborðið

Nesval á Seltjarnarnesi
Nesval á Seltjarnarnesi

Þótt flestir kjósi að gera sem minnst á jóladag mæta sumir til vinnu. Þeirra á meðal er Soffía Guðlaugsdóttir, eigandi verslunarinnar Nesvals, sem segir það hluta af jólahefð fjölskyldunnar að standa við búðarborðið á jóladag.

„Það er ýmislegt sem gleymist, aðallega er það rjómi og svoleiðis en við erum vídeóleiga líka þannig að fólk kemur til okkar og leigir myndir og suma vantar eitthvað að maula með,“ segir Soffía og bætir við að svo virðist sem ákveðinn aldurshópur kunni ekki að meta hátíðardagskrá sjónvarpsstöðvanna.

Þetta er sjöunda árið í röð sem opið er í Nesvali á jóladag og segir Soffía marga reiða sig á það sem öryggisnet ef eitthvað gleymist, sumir leggi jafnvel leið sína á Seltjarnarnesið ofan úr Mosfellsbæ eða Hafnarfirði til að kaupa grænar Ora-baunir eða laufabrauð. „Við ákváðum það þegar við tókum við þessari verslun að viðhalda þessari hefð, því ég man eftir því sjálf að hafa einhvern tíma í fyrndinni verið send út á Seltjarnarnes á jóladag og þá var lúguafgreiðsla.“

Aðspurð hvort freisti hennar aldrei að láta af þessari hefð og halda sig bara heima á jóladag þverneitar Soffía því. „Þetta er skemmtilegasti dagur ársins, það koma allir svo glaðir og ánægðir. Svo erum við bara hérna fjölskyldan og borðum okkar mat eftir lokun í kvöld,“ segir Soffía, en opið er í Nesvali til klukkan 21.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert