Innbrot hjá Fjölskylduhjálp

Margir reiða sig á úthlutun hjálparstofnanna fyrir jólin.
Margir reiða sig á úthlutun hjálparstofnanna fyrir jólin. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta er döpur jólakveðja til okkar, maður er eiginlega gráti nær,“ segir Anna Valdís Jónsdóttir verkefnastjóri Fjölskylduhjálpar Íslands á Suðurnesjum, en brotist var inn í húsnæði þeirra í nótt og tölvugögnum stolið.

Það var skjólstæðingur Fjölskylduhjálpar sem kom auga á það í morgun að brotin hefði verið rúða í húsnæði samtakanna í Grófinni  10C í Reykjanesbæ og lét lögreglu og starfsfólk vita. Anna Valdís segir aðkomuna hafa verið ljóta. „Það var brotin rúða og brotin hurð á efri hæð og allt á rúi og stúi. Þetta er mikil tilfinningalegt tjón en fyrst og fremst gerir þetta okkur helmingi erfiðara fyrir því í tölvunni voru mikilvæg gögn, um allar kennitölur einstaklinga sem til okkar leita, hversu oft þeir hafa komið og svo framvegis. Tölvan er einskis virði, en það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fá þetta í hendur.“

Þjófurinn ekki matarþurfi

Auk tölvunnar segir Anna útlit fyrir að stolið hafi verið barnagöllum sem Fjölskylduhjálpin fékk að gjöf frá 66°Norður til að gefa barnafjölskyldum. Hún segir alveg ljóst að þann eða þá sem þarna voru á ferð hafi ekki vantað mat. „Það er alveg ljóst því við höfum verið á vaktinni hér allan sólarhringinn síðustu daga við að dreifa mat og með símavakt þannig að fólk hefur getað hringt ef það vantar eitthvað og við höfum keyrt heim til þess.“

Á 7. hundrað fjölskyldur í Reykjanesbæ þáðu aðstoð Fjölskylduhjálpar fyrir jólin. Sjálf segist Anna hafa verið að til klukkan að ganga sjö á aðfangadag. Ljóst sé að innbrotið hafi orðið eftir það. „Meira að segja er það þannig að við höfum haft spurnir af fóli sem ekki hefur þorað að koma til okkar og biðja um mat, svo við höfum farið til þess. Ég til dæmis aðstoðaði 5 manna fjölskyldu sem ætlaði bara að halda jólin eftir áramótin því þau vildu ekki biðja um hjálp.“

Biður um að gögnunum sé skilað

Anna biðlar til innbrotsþjófanna að skila aftur tölvugögnunum. „Það er erfitt fyrir okkur að byrja þar sem frá var horfið án þeirra. Gögnin verðum við að fá og það er okkar ósk að viðkomandi skili þeim svo okkur sé kleift að halda okkar starfi áfram.“

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málið og þeir sem hafa vitneskju um innbrotið geta haft samband við lögreglu í síma 420-1800.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert