Veðrið dró ekki úr kirkjusókn

Hátt í 900 manns sóttu tvær messur á aðfangadag í …
Hátt í 900 manns sóttu tvær messur á aðfangadag í Hallgrímskirkju. Mbl.is/Una

Landsmenn virðast ekki hafa látið veðrið aftra sér frá því að sækja sína jólamessu á aðfangadag því kirkjusókn var almennt góð á landinu öllu. Birgir Ásgeirsson, prófastur í Hallgrímskirkju, segir ástæðu til að gleðjast yfir góðri messusókn þrátt fyrir erfiða umræðu um kirkjuna á árinu.

Birgir hefur heyrt frá prestum úr sóknum hér og þar á landinu í morgun og ber þeim almennt saman um að bekkurinn hafi verið þétt setinn. Messufall varð vegna veðurs í Þykkvabæjarkirkju, Sauðlauksdalskirkju og á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu á Hellu. En víða rættist úr veðrinu og setti það minna strik í reikninginn en margir prestar höfðu búist við. Birgir segir nokkrar kirkjur hafa verið fjölsóttari en undanfarin ár.

„Það er fólk á öllum aldri og á einum stað vakti athygli prestsins hve mikið var af unglingum og vel tekið undir í almennum söng,“ segir Birgir og bætir því við að yfirleitt sé auðvelt að fá fólk til að taka undir jólasöngvana. „Fólki finnst gaman að syngja jólasöngvana enda er ekki verið að leita eftir öðru en bara að fá þesa stemningu sem jólasöngvarnir gefa.“

Hátt í 2.000 í messur í miðborginni

Í dómkirkjunni voru tvær messur á aðfangadagskvöld og sóttu um 400 messuna klukkan 18 en um 500 sóttu messu Karls Sigurbjörnssonar biskups klukkan 22. „Og hjá okkur í Hallgrímskirkju var tvisvar sinnum full kirkja og eru það á níunda hundrað sem sóttu messu hjá okkur. Ég var með messuna klukkan 18 og það voru prentuð aukaeintök af messuskrá en það dugði ekki til,“ segir Birgir.

Birgir segir svo virðast sem kirkjan sé enn góður samnefnari á hátíðarstundum og ástæða sé til að gleðjast yfir því. „Það hefur verið erfið umræða um þjóðkirkjuna í haust og á þessu ári en manni heyrist það hafa snúist eitthvað við. Og það er mikið þakkarefni hve margir tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd messuþjónustunnar, það eru tónlistarmenn og messuþjónar og margir aðrir sem koma að þessu með glöðu geði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert