Efast um ótta á meðal íslenskra gyðinga

Hope Knútsson, formaður Siðmenntar - félags siðrænna húmanista á Íslandi.
Hope Knútsson, formaður Siðmenntar - félags siðrænna húmanista á Íslandi. mbl.is

„Það var fullt af rangfærslum í þessari frétt,“ segir Hope Knútsson, formaður Siðmenntar - félags siðrænna húmanista á Íslandi, um frétt sem birtist á vef ísraelska dagblaðsins Haaretz á Þorláksmessu en þar var m.a. greint frá því að gyðingar á Íslandi væru upp til hópa óttaslegnir og lifðu jafnvel í felum með trú sína.

Í fréttinni á vef Haaretz er Hope sögð vera „kvenkynsleiðtogi íslenska gyðingasamfélagsins“. „Ég hef aldrei verið leiðtogi gyðinga, hvorki hér né annars staðar,“ segir Hope í samtali við mbl.is. Að sögn Hope hefur hún aldrei aðhyllst gyðingatrú þó svo að hún sé af gyðingaættum.

„Ég efast um það,“ segir Hope aðspurð hvort gyðingar hér á landi séu óttaslegnir. „Annars tengist ég ekki þessu fólki. Fyrir um 30 árum síðan komum við saman kannski tvisvar á ári og borðuðum kvöldmat saman og það var enginn þá sem óskaði eftir opinberri skráningu sem trúfélag,“ segir hún.

Haaretz greinir jafnframt frá því að gyðingar á Íslandi hafi ítrekað boðið Dorrit Moussaieff, forsetafrú, að taka þátt í hátíðarhöldum með þeim en að hún hafi aldrei séð sér fært að mæta. „Mér skilst að einhver hafi einhvern tíma boðið Dorrit að mæta í eitthvert  kvöldmatarboð, en í fréttinni er þetta látið líta út fyrir að fólkið sé sárt út í hana af því að hún vilji ekki láta tengja sig við hópinn. Ég varð mjög hissa að lesa þetta því mig minnir að ég hafi lesið einhvers staðar að hún sé aðeins gyðingur borgaralega séð en ekki gyðingatrúar, þannig að það er engin ástæða fyrir hana til þess að tengjast hópnum,“ segir Hope.

Frétt Haaretz um málið má nálgast á vef blaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka