Í gær, jóladag, gómuðu lögreglumenn á Fáskrúðsfirði tvo veiðiþjófa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Eskifirði.
Mennirnir höfðu skotið hreindýr í Hamarsfirði fyrr um daginn. Upp komst um verknaðinn við venjubundið umferðareftirlit lögreglunnar, en lögreglan hafði afskipti af bifreið sem í voru menn sem klæddir voru í veiðigalla og virtust mjög vel útbúnir til veiða. Þeir kváðust hafa verið við refaveiðar í Hamarsfirði og ekki staðist mátið þegar hreindýrs varð vart.
Málið, sem telst upplýst er til meðferðar hjá lögreglunni í umdæmi lögreglustjórans á Eskifirði.