Einhvern næstu daga verður opnuð á Akureyri þjónustuskrifstofa Sparisjóðs Höfðhverfinga. Starfsemin verður til húsa á neðstu hæðinni á Glerárgötu 36. „Við erum að koma,“ segir Jóhann Ingólfsson, formaður stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga á Grenivík, um fyrirhugaða starfsemi á Akureyri. Þetta kemur fram á vef Vikudags.
Til að byrja með verða tveir starfsmenn á þjónustuskrifstofunni en það ræðst svo af viðbrögðum Akureyringa og nærsveitarmanna hvert framhaldið verður. „Við höfum miklar væntingar enda verðum við vör við mikinn áhuga. Það hefur verið mikið að gera við að taka á móti nýjum viðskiptavinum frá Akureyri,“ sagði Jóhann við Vikudag.
Samkomulag var gert við Ingva Þór Björnsson, sparisjóðsstjóra á Grenivík, um að hann léti af störfum og hefur Jenný Jóakimsdóttir tekið við starfi hans. Þá hefur Örn Arnar Óskarsson, sem lét af starfi útibússtjóra Byrs á Akureyri skömmu fyrir jól, verið ráðinn til sparisjóðsins á Akureyri.