Aðeins minni áfengissala í ár

Sala á áfengi er að dragast lítillega saman frá því …
Sala á áfengi er að dragast lítillega saman frá því í fyrra. Mbl.is/Golli

Salan í vínbúðum landsins dagana 1.-24.desember í ár var 1.509 þúsund lítrar, en á sama tíma fyrir ári 1.525 þúsund lítrar. Sala áfengis dróst því saman um 16.000 lítra frá sama tímabili í fyrra, eða um 1%.

Að sögn Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra Vínbúðanna, er þetta aðeins minni samdráttur í áfengissölu en gert er ráð fyrir yfir árið í heild, frá síðasta ári. Í ár hafa 327 þúsund viðskiptavinir komið í vínbúðirnar en sömu daga í fyrra voru þeir 332 þúsund.

Síðustu dagana fyrir jól, 21.-24.desember, seldust 431 þúsund lítrar, en á sömu dögum fyrir ári seldust 438 þúsund lítrar.

Tveir af annasömustu dögum ársins í vínbúðunum eru venjulega 30. og 31. desember. Gera má ráð fyrir að milli 42 og 44 þúsund viðskiptavinir leggi leið sína þangað 30. desember og um 21 þúsund á gamlársdag. 

Annasömustu klukkustundirnar eru milli 16 og 18 hinn 30. desember (það er opið í stærri búðum til klukkan 20:00) og milli 11 og 12 hinn 31. desember (opið til klukkan 13:00).

Á gamlársdag er gert ráð fyrir að um 7.500 viðskiptavinir verði afgreiddir á hverri klukkustund, sem er svipaður fjöldi og kemur allan daginn í vínbúðirnar á hefðbundnum miðvikudegi á öðrum árstíma.

Áfengisverð hækkar um áramótin

Eins og fram hefur komið hækkar áfengisgjald um áramótin og mun það endurspeglast í áfengisverðinu. Gjaldið á að hækka um 5,1% og því hækkar innkaupsverðið sem ÁTVR kaupir áfengið á, af innlendum birgjum, sem því nemur.

Sigrún Ósk hefur reiknað hugsanlegar verðbreytingar á nokkrum tegundum áfengis eftir hækkunina, og þá gert ráð fyrir að ekkert breytist nema áfengisgjaldið. Þá má gera ráð fyrir að áfengisverð hækki um á bilinu 2,3-4,3%.

Eðlilega hefur breytingin mest áhrif á sterka vínið þar sem hlutfall áfengisgjaldsins í söluverðinu er hátt. Verðbreytingin verður því minnst í bjór en mest í áfengi á borð við vodka.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka