„Íslenska byltingin“ í Venesúela

Synjun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á Icesave-lögunum er sett …
Synjun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á Icesave-lögunum er sett í samhengi við „íslensku byltinguna“ á vef ríkisútvarpsins í Venesúela. mbl.is/Golli

Íbúafjöldi Íslands er aðeins rúmlega 300.000. Landið hefur engan her. Engu að síður tókst Íslendingum að leggja mestu fjármálaveldi heims með lýðræðið að vopni. Svo hefst lýsing venesúelska ríkisútvarpsins á Icesave-deilunni og atburðarásinni á Íslandi í kjölfar fjármálahrunsins 2008.

Rakið er hvernig gengi krónunnar hrundi við fjármálahrunið og hvernig Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildu leggja þá þungu byrði á íslenska alþýðu að greiða sem svarar hundrað evrum á mánuði á hvert mannsbarn í fimmtán ár vegna Icesave-kröfunnar.

Sú krafa hafi hrundið af stað „íslensku byltingunni“ (spænska: la revolución islandesa) með götumótmælum í Reykjavík. Segir þar einnig að krafan sverji sig í ætt við sambærilegar kröfur á hendur almenningi á Írlandi, Grikklandi, Spáni, Ítalíu og Portúgal.

Er því svo lýst hvernig íslenskur almenningur hafi beitt Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, miklum þrýstingi um að synja Icesave-lögunum staðfestingar.

Sagðir hafa beitt ESB og AGS gegn Íslandi

Segir þar ennfremur að Bretar og Hollendingar hafi beitt áhrifum sínum í gegnum fjármálastofnanir, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið til að hóta Íslendingum því að Íslandi yrði breytt í Kúbu norðursins ef þeir létu ekki undan kröfunum. Bretar og Hollendingar hafi þannig hótað Íslendingum sömu örlögum og Kúbverjum eftir byltingu Fídels Castro. Er þar átt við alþjóðlega einangrun.

Niðurstaða greinarhöfundar á vef ríkisútvarpsins í Venesúela er sú að Íslendingar hafi sýnt fram á að ekki beri að fela valdið í hendur stofnunum sem ganga fram hjá hagsmunum almennings, heldur beri að láta almannaviljann ráða för.

Greinina á vef Radio Nacional de Venezuela má nálgast hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert