OECD með úrelt gögn um Ísland

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslendingar hafa ekki tilkynnt alþjóðlegum stofnunum, þar á meðal Efnahags- og framfararstofnuninni (OECD), um mikilvægar breytingar á umhverfi erlendrar fjárfestingar hér á landi. Þannig hefur það verið í fjölda ára, eða jafnvel allt frá gildistöku EES-samningsins árið 1994, og þess vegna hefur OECD ef til vill haft Ísland neðar á blaði þegar kemur að umhverfi fyrir erlenda fjárfestingu en tilefni hefur verið til.

Þetta var meðal þess sem Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, gerði ríkisstjórninni grein fyrir á fundi hennar í morgun.

„Það vaknaði grunur um það á árinu að það væri nú ekki allt sem sýndist, varðandi það hvað Ísland var að koma illa út í mati á umhverfi um erlenda fjárfestingu, sérstaklega hjá OECD,“ segir Árni Páll í samtali við mbl.is

„Það kom í ljós að grundvallarbreytingar sem gerðar voru á fjárfestingarumhverfinu á síðustu árum hafi ekki verið tilkynntar stofnuninni. Jafnvel alveg frá gildistöku EES-samningsins. Regluverkið hér hefur þar af leiðandi verið talið lokaðra en það raunverulega er," segir hann.

OECD með mjög gamlar upplýsingar

Sem dæmi um rangar upplýsingar hjá OECD nefnir hann að gengið sé út frá því að öll óbein fjárfesting erlendra aðila í sjávarútvegi væri óheimil. Sömuleiðis að öll erlend fjárfesting sem gæti hamlað samkeppni bæri bönnuð. Það á ekki við enda gilda bara almenn samkeppnislög um samkeppnismál núorðið.

Einnig taldi OECD að á Íslandi væri blátt bann við kaupum erlendra aðila á meira en fjórðungshlut í íslenskum bönkum og sömuleiðis að opinbert leyfi þyrfti fyrir allri erlendri fjárfestingu sem næmi meira en fjórðungi fjárfestingar í viðkomandi grein og allri beinni erlendri fjárfestingu yfir 250 milljónum króna. Svo er hins vegar ekki.

Vill skýra stefnu um erlenda fjárfestingu

„Þetta sýnir mikilvægi þess að marka skýra stefnu um erlenda fjárfestingu. Sýnir kannski líka hvers konar olnbogabarn erlend fjárfesting hefur lengi verið í íslensku stjórnkerfi. Menn hafa ekki einu sinni hirt um að tilkynna þessar kerfisbreytingar," segir Árni Páll.

Spurður hvort þetta hafi kannski setið á hakanum í góðærinu þar sem peningar flæddu hvort sem er inn í landið segir Árni að Viðskiptaráð hafi kvartað yfir því árið 2003 að Ísland væri neðst á blaði hjá OECD, yfir lista aðildarríkja með tilliti til umhverfisins fyrir erlenda fjárfestingu. Þá hafi samt ekkert verið gert í málinu.

„Nú mun stofnunin væntanlega fara yfir þetta og sjá hvað þetta breytir miklu. Auðvitað er ýmislegt sem við eigum eftir að gera í regluverkinu og margt sem við eigum eftir að gera til þess að við náum því markmiði að færast upp á listanum. En það er alveg óþarfi að vera neðarlega á honum að ósekju," segir Árni Páll.

Fyrir jól lagði hann fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um þessi mál. Þar er gert ráð fyrir stefnumörkun um erlenda fjárfestingu og tilgreint hvaða fjárfestingu stjórnvöld eigi beinlínis að sækjast eftir.

„Þannig að þessi umræða um einstök fjárfestingaráform, sem getur orðið mjög tilfinningaþrungin og tilviljanakennd, að það verði minna um hana og meira um að við nálgumst þetta með skipulegum hætti,“ segir Árni. Fjárfestar megi ekki hafa það á tilfinningunni að hér sé tekið með tilviljanakenndum hætti á erlendri fjárfestingu. Það sé eitur í þeirra beinum.

Frumvarp um gjaldeyrishöft á nýju ári

Eftir sem áður eru gjaldeyrishöftin stærsti hemillinn á erlenda fjárfestingu. Spurður út í þau mál segist Árni búast við frumvarpi fljótlega á nýju ári, þar sem tekið verði á óþarflega íþyngjandi ákvæðum í lögunum um höftin.

„Svo er seðlabankinn búinn að kynna þessa fjárfestingarleið. Við erum vongóð um að sú leið skili árangri og þegar hefur orðið vart við áhuga þar," segir Árni Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert