Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi um að sjóðsfélagar lífeyrissjóðanna kjósi stjórnir sjóðanna, en í dag eru stjórnir margra sjóða skipaðir af stéttarfélögum eða samtökum atvinnurekenda.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Pétur H. Blöndal alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að skýrt verðið kveðið á um í lögum að sjóðfélagarnir eigi lífeyrissjóðina. Jafnframt skuli lífeyrissjóðirnir upplýsa hvern sjóðfélaga um verðmæti persónulegra réttinda hans, þ.e. hlutdeild hans í eignum sjóðsins.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að miklar eignir hafi safnast í lífeyrisjóðum landmanna og standi þær á móti réttindum sjóðfélaga, maka þeirra og barna.
„Þessar eignir, 2.000 milljarðar króna, eru um 17 mkr. hrein eign á hvert heimili landsins og öryggi þeirra og ráðstöfum eru tvímælalaust mestu fjárhagslegir hagsmunir heimilanna. Þess vegna er mjög brýnt að sjóðfélaginn viti af þessari eign sinni og hafi um það að segja hvernig henni er ráðstafað því fjármununum er ætlað að tryggja tekjur sjóðfélaganna þegar þeir geta ekki aflað tekna vegna elli, örorku eða fráfalls fyrir aldur fram.“
Í fylgiskjali með frumvarpinu er lýsing á viðmiðunarvöxtum lífeyrissjóðanna, sem eru 3,5% og hvað þurfi að hækka iðgjald, lækka réttindi eða hækka ellilífeyrisaldur mikið ef þessi viðmiðun næst ekki. „Það þarf mjög öflugt atvinnulíf og mikil tækifæri til að ná slíkri ávöxtun örugglega en hún tvöfaldar raungildi sparnaðar á 20 ára fresti. Margt bendir til þess að þessi viðmiðun muni ekki nást á næstu árum og áratugum. Þá verða menn að bregðast hratt við vandanum og gera eitt af þessu þrennu eða blöndu af öllu eins óvinsælt og það verður. Þá er mikilvægt að fólkið átti sig á samhengi hlutanna og taki þátt í þeim aðgerðum og vinni ekki á móti lífeyrissjóðunum.
Önnur ógn, sem steðjar að lífeyrissjóðunum er framfærsluuppbótin sem var tekin upp með reglugerð í september 2008 en var síðar sett ákvæði um í lög um félagslega aðstoð. Hún gerir það að verkum að einstaklingur sem er búin að borga áratugum saman í lífeyrissjóð og fær 70.000 kr. á mánuði í ellilífeyri frá sjóðnum sínum, er skertur svo mikið hjá Tryggingastofnun ríkisins, að hann er engu betur settur en annar einstaklingur, sem kom sér hjá því að greiða í lífeyrissjóð. Þetta er ekki beint hvati fyrir fólk til að greiða í lífeyrissjóð og er getur haft alvarleg áhrif á vilja fólks til að gera það. Reyndar hefur dregist úr hömlu að tengja með skynsamlegum hætti tekjutengdan lífeyri frá lífeyrissjóðunum og ótekjutengdan lífeyri frá Tryggingastofnun. Er nú verið að vinna að lausn á því vandamáli.“