Tveir skíðamenn voru fluttir á slysadeild í dag eftir að hafa slasast á skíðum í Bláfjöllum. Ekki er vitað um líðan mannanna. Í öðru tilviki lenti skíðamaður í samstuði við annan og í hinu tilvikinu kvartaði skíðamaður undan verk í baki eftir að hafa stokkið í brekkunni.
Nokkur þúsund manns renndu sér á skíðum í Bláfjöllum í dag og mynduðust um tíma mjög langar biðræðir við miðasöluna. Ekki bætti úr skák þegar bilun kom upp í tölvukerfi. Starfsfólk skíðasvæðisins reiknaði ekki með að svo margir kæmu í dag þar sem þetta er vinnudagur. Starfsfólkið reyndi þó eftir bestu getu að greiða fyrir því að fólk gæti notið útiveru í brekkunum.
Þegar svo margir renna sér á skíðum fer ekki hjá því að einhverjir meiði sig enda ekki allir búnir að ná fullum tökum á skíðunum. Nokkuð var um að fólk leitaði aðstoðar læknis vegna eymsla og tognana.
Opnað verður í Bláfjöllum kl. 10 í fyrramálið. Útlit er fyrir ágætar aðstæður fram eftir degi, en þó er ekki útilokað að lokað verði eitthvað fyrr annað kvöld vegna veðurs.