„Miðað við það verð sem sambærileg virkjun fengi í Noregi væri þetta blússandi flott framkvæmd,“ segir Níels Sveinsson, sem rannsakaði kosti sjávarfallavirkjunar í Hvammsfirði fyrir lokaverkefni sitt í meistaranámi við alþjóðlega orkuskólann REYST.
Helsta niðurstaðan er sú að slík virkjun væri raunhæfur möguleiki og gæti framleitt nóg rafmagn fyrir öll heimili landsins, ef miðað er við meðalrafmagnsnotkun á íslenskum heimilum. Framkvæmdin er þó ekki hagkvæm eins og er sökum þess að raforkuverð á Íslandi er of lágt.
Nýtnihlutfallið fyrir sjávarfallavirkjun á borð við þá sem er til skoðunar í Hvammsfirði yrði svipað og í meðalvindorkuvirkjun, eða 25-30%. Til samanburðar má nefna að í hefðbundinni vatnsaflsvirkjun er nýtnihlutfallið um 90%. Þá séu sjávarfallavirkjanir umhverfisvænn kostur, vegna þess að sjón- og hljóðmengun sé engin og lítil sem engin röskun á dýralífi.
Mikið magn ódýrrar orku hér á landi er lykilástæða þess að áhuginn á sjávarfallavirkjunum hefur verið takmarkaður, að sögn Níelsar. Hann segir þær þó raunhæfan framtíðarkost, enda ekki óeðlilegt að gefa sér að þróunin verði til þess að ná niður kostnaði eins og t.d. í vindorkunni.