„Aðsóknin er bara frábær og hefur verið að stigmagnast í allan dag. Við erum búin að vera hérna í blankalogni frá því klukkan tíu í morgun. Það var svartaþoka hérna í morgun en eftir klukkan ellefu fór að birta til og síðan hefur þetta bara verið æðislegt,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri skíðasvæðisins í Bláfjöllum, í samtali við mbl.is.
Einar segir aðspurður að snjórinn á skíðasvæðinu sé mjög góður. „Þetta er bara nýr snjór sem kemur í frosti, það gerist ekkert betra en þetta,“ segir hann.
Miðasalan hefur í samræmi við þetta gengið mjög vel í morgun að sögn Einars. „Það komast kannski ekki allir á sömu mínútunni og þetta dreifist eitthvað á lengri tíma en það hafa ekki verið nein tæknileg vandamál því tengd eins og í gær, þannig að þetta er bara mjög gott í dag.“