„Við erum með mjög afmarkaða stefnuskrá sem snertir aðeins þessi mikilvægu mál. Að hluta til eigum við mikla samleið með stjórnarflokkunum, eins og til dæmis í stjórnarskrármálinu. Það eru engir stórir átakafletir þar,“ segir Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, aðspurð hvort hún telji grundvöll fyrir samvinnu við VG og Samfylkingu í ríkisstjórn.
„Persónulega hef ég hins vegar verið mjög ósátt við hvernig tekið hefur verið á skuldamálum heimilanna. Þá á ég meðal annars við sértæku úrræðin sem eru alltof dýr, alltof tímafrek og virka ekki nema fyrir suma. Í verðtryggðu umhverfi er 110% leiðin brandari.“
Margrét lýsir viðræðunum svo:
„Við höfum verið í óformlegu spjalli. Við eru ekki að sækjast eftir ráðherrraembættum eða neinu slíku. Áður en viðræður geta haldið áfram þyrftum við að fá innsýn inn í annað sem er framundan hjá stjórnarflokkunum. Hvaða verkefni leggja stjórnarflokkarnir áherslu á næstu mánuði önnur en stjórnarskrána og fiskveiðimálin? Þessari spurningu þyrfti að svara.“