Síldarvinnslan veitti í morgun björgunarsveitinni Gerpir styrk að upphæð 2,5 milljónir króna.
Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar þakkaði við það tækifæri aðstoðina á aðfangadagskvöld, og nefndi jafnframt hvað það skiptir miklu fyrir fyrirtæki eins og Síldarvinnsluna, sveitarfélagið og samfélagið allt að eiga öflugar björgunarsveitir sem eru tilbúnar að takast á við erfið verkefni, segir á vef björgunarsveitarinnar.
„Eins og flestum er kunnugt varð Björgunarsveitin Gerpir fyrir töluverðu tjóni bæði á húsnæði og tækjum í ofsaveðrinu sem gekk yfir á aðfangadagskvöld. Það tjón er á bilinu 2-3 milljónir í heildina. Tryggingarnar munu bæta einhvern hluta en ekki er orðið ljóst hve mikinn. Hluti af styrknum frá Síldarvinnslunni mun því líklega fara í þær lagfæringar sem þarf að gera á húsnæði sveitarinnar," segir í frétt á vef björgunarsveitarinnar.