Borgaryfirvöld segja að unnið hafi verið fram á kvöld við snjóhreinsun í Reykjavík. Klukkan fjögur í fyrramálið verði síðan haldið áfram af krafti. Í dag voru 72 starfsmenn á vegum borgarinnar og verktaka á hennar vegum í vinnu við snjóhreinsun. Þeir notuðu 39 gröfur og 11 vörubíla til verksins.
Sami mannskapur verður við störf á morgun og það bíður hans mikið verk, að því er fram kemur á vef Reykjavíkurborgar.
Líkt og fram hefur komið þarf að leita aftur til ársins 1984 til að finna jafnsnjóþungan desembermánuð.
Í dag var unnið að því að ryðja snjó í húsagötum í öllum hverfum, sem og snjóhreinsun af bílastæðum við leikskóla.
„Reynt er að komast yfir sem mest og geta því orðið eftir snjóhryggir við innkeyrslur sem verður að skilja eftir. Íbúar eru beðnir um að sýna biðlund, en tekið er við ábendingum hjá símaveri Reykjavíkurborgar í síma 411 1111 og á netfangið fer@reykjavik.is,“ segir á vef borgarinnar.