Þungfært vegna fannfergis

Björgunarsveitir voru að störfum í nótt vegna ófærðarinnar.
Björgunarsveitir voru að störfum í nótt vegna ófærðarinnar. Ljósmynd/Kristinn Guðjónsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill beina þeim tilmælum til ökumanna að sýna sérstaka tillitssemi og þolinmæði nú í morgunumferðinni. Mikið hefur snjóað í gærkvöldi og nótt og er því þungfært á mörgum stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

Uppfært klukkan 06.39

„Björgunarsveitir voru ræstar út til aðstoðar ökumönnum í nótt og hafa björgunarsveitir og lögregla aðstoðað fjölda ökumanna sem voru fastir vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið í alla nótt.

Þá hefur borið á því nú í morgunsárið að bílar séu fastir og yfirgefnir og tefur það mjög fyrir snjóruðningstækjum sem eru við störf. Ökumenn eru því hvattir til að fara ekki af stað nema bílar séu tilbúnir að takast á við þá vetrarfærð sem er í höfuðborginni,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Ríkharður Örn Steingrímsson, varðstjóri á lögreglustöð 4, sagði að björgunarsveitir hefðu verið ræstar út um klukkan 01.00 í nótt en þá voru bílar farnir að festast og orðið mjög þungfært víða. Eftir að björgunarsveitirnar voru kallaðar út beindust aðstoðarbeiðnirnar til þeirra.

Aðstoðarbeiðnir bárust í margra tuga tali í nótt. Björgunarsveitir höfðu í nógu að snúast fram undir morgunn.

Klukkan 02.00 höfðu um 20 ökumenn beðið um aðstoð en þeir voru staddir víða um höfuðborgarsvæðið. Beiðnunum fjölgaði mikið eftir það.

Einnig var Björgunarfélag Akraness kallað út til að sækja bíl sem sat fastur á veginum norðan við Grundartanga. 

Mikil leit var gerð að ungum manni sem villtist við Vatnsenda. Hann fannst heill á húfi.

Villtist við Vatnsenda

Mikill snjór er í Reykjavík
Mikill snjór er í Reykjavík Ljósmynd Sarah Unnsteinsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert