Þingmenn Hreyfingarinnar hafa undanfarna daga átt í óformlegum viðræðum við oddvita ríkisstjórnarflokkanna um helstu áherslumál Hreyfingarinnar í stjórnmálum er lúta að þjóðaratkvæðagreiðslum, persónukjöri og nýrri stjórnarskrá.
Einnig var rætt um stefnu Hreyfingarinnar í tengslum við aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna, almenna leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar, að því er segir í tilkynningu frá þingmönnum Hreyfingarinnar, Birgittu Jónsdóttur, Margréti Tryggvadóttur og Þór Saari.
„Þingmennirnir hafa nálgast þessar viðræður út frá stefnuskrá Hreyfingarinnar og lýst yfir vilja til samstarfs á þeim grundvelli. Viðræðurnar voru vinsamlegar en leiddu ekki til niðurstöðu að sinni."