Óánægja er innan stjórnarflokkanna með fyrirhugaðar breytingar á ráðherraskipan, sem kynntar verða þingmönnum formlega síðdegis í dag.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var staðan þannig á hádegi í gær að Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, voru á leið úr ríkisstjórn og ekki von á öðrum í þeirra stað.
Heimildir innan stjórnarflokkanna hermdu í gærkvöldi að staðan væri óbreytt og að á þingflokksfundum stjórnarflokkanna síðdegis í dag yrðu lagðar fram tillögur um að þessir tveir ráðherrar vikju úr embættum. Sömu heimildir herma að væntanlega verði einnig stefnt að stofnun nýs atvinnuvegaráðuneytis en ekki sé eining um það innan þingflokks Samfylkingarinnar hvort Árni Páll eða Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra taki við því.
Í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir, að af samtölum við þingmenn og ráðherra hafi mátt merkja óánægju með þessa fyrirætlan. Innan Samfylkingarinnar eru menn ósáttir við veikingu ráðuneytis efnahagsmála og það að setja Árna Pál út úr ríkisstjórn. Þá hefur Jón notið mikils stuðnings meðal félagsmanna VG að undanförnu og má búast við úrsögnum úr flokknum fari svo að hann verði látinn víkja sem ráðherra.