Ekkert tap af eign í bönkunum

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Golli

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir horfur á að ríkissjóður komist frá endurreisn stóru bankanna án nokkurs taps. Hann segir að ríkið hafi bundið um 185 milljarða í bönkunum og ávöxtun af þessu fé hafi verið góð.

Steingrímur segir þetta í jóla- og áramótakveðju til félaga og stuðningsmanna VG. Hann segir að á Íslandi þekkjum við umræðuna um fjáraustur í fjármálakerfið og sanngirnisspurningar er tengjast því.

„Sem betur fer er hægt að fullyrða að í tilfelli Íslands mun ríkið fá fjármuni sína að mestu til baka eða halda verðmætum eignarhlutum í fjármálastofnunum ella. Ríkið hefur bundið samtals um 185 milljarða kr. í stóru bönkunum við endurreisn þeirra í formi eiginfjárframlaga og víkjandi lána. Ef staðan í dag er skoðuð er ljóst að ríkið hefur haft mjög góða ávöxtun á því fé sem það varð að binda í þetta verkefni, sem er um 250 milljörðum minna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Ætla má að ríkið fái þessa peninga að fullu til baka og komist frá endurreisn stóru bankanna án nokkurs taps í þeim skilningi að arðgefandi eignir og/eða endurseljanlegar eignir standi fyllilega undir því fé, sem ríkið hefur bundið í verkefnið, miðað við efnahagsreikninga bankanna. Þannig hafa fjármunir ríkissjóðs ekki farið í botnlausa hít heldur þvert á móti verið festir í verðmætum eignum. Í framtíðinni verður hægt að nota þessa fjármuni eða arðinn af þeim til þess að greiða niður skuldir og halda áfram við byggja upp íslenskt samfélag,“ segir Steingrímur.

Ávarp Steingríms

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert